Ríki íslam nær landsvæðum til baka

Sýrlenska lýðræðissveitin og bandamenn reyna nú að ná yfirráðum yfir …
Sýrlenska lýðræðissveitin og bandamenn reyna nú að ná yfirráðum yfir Raqa í Sýrlandi. AFP

Hið svokallaða Ríki íslams hefur náð til baka landsvæði í borginni Raqqa í Sýrlandi. Sýrlenska lýðræðissveitin og bandamenn höfðu náð yfirráðum í Al-Senaa hverfinu en hafa nú misst svæðið til hryðjuverkasamtakanna.

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna réðust að sýrlensku sveitinni með sjálfsmorðsárásum og vopnuðum drónum. Einnig notuðu þeir undirgöng í árásum sínum. Al-Senaa hverfið er það næsta sem andstæðingar hryðjuverkasamtakanna hafa komist að miðborg Raqqa.

Hópur vígamanna, sem dulbúnir voru sem hermenn Sýrlensku lýðræðissveitarinnar, sprengdi meðal annars þrjár bílsprengjur í miðju hverfisins. Sýrlenska sveitin og bandamenn hennar hafa nú hörfað frá svæðinu og komið sér upp varnarstöðu í nærliggjandi hverfi.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 100.000 óbreyttir borgarar séu enn í Raqqa og hafa vígamenn verið sakaðir um að nota þá sem mannlega skildi í baráttunni um borgina. Raqqa hefur verið eitt helsta vígi hryðjuverkasamtakanna til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert