Fjöldi látinna hækkar í Damaskus

Bílinn sem sprengdur var upp.
Bílinn sem sprengdur var upp. AFP

Tala látinna eftir sjálfsmorðsárás í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, er komin upp í 18. Þetta er blóðugasta árás á höfuðborgina í marga mánuði.

Að sögn sýrlenskra miðla höfðu öryggissveitir afskipti af þremur bifreiðum með sprengjum á leið sinni inn í borgina snemma í morgun. Tveir bílstjórar sprengdu sig upp í útjaðri borgarinnar. Sá þriðji náði þó að komast að Tahrir-torginu í austurhluta borgarinnar og sprengdi ökumaðurinn sig í loft upp þar.  

Fréttaritari AFP í borginni segir torgið mikið skemmt sem og byggingarnar sem standa við það. Mátti sjá konu gráta í íbúð nálægt torginu en svalirnar hennar hrundu í sprengingunni.

Hún sagði að dóttir sín hefði verið flutt á sjúkrahús eftir að hún varð fyrir fljúgandi glerbrotum.

Mohammad Tinawi, sem býr við torgið, sagðist í samtali við AFP hafa vaknað við skothríð um klukkan 6 í morgun að staðartíma og sprengingu í kjölfarið.

Damaskus hefur að miklu leyti sloppið við bardagana í landinu síðustu sex árin. Þrátt fyrir það hafa tugir manna látið lífið í sprengjuárásum í borginni, sérstaklega í útjaðri hennar.

Um miðjan mars létu 32 lífið í sprengjuárás á dómshús og veitingastað í miðri borginni en hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð. Tveimur dögum fyrr létu 74 lífið í árás sem samtökin Tahrir al-Sham báru ábyrgð á.

Við Tahrir-torgið í morgun.
Við Tahrir-torgið í morgun. AFP
Hús við torgið eru illa farin.
Hús við torgið eru illa farin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert