Lögregla vill liðsauka vegna G20 fundar

Slökkviliðsmenn slökkva í bílum sem mótmælendur á G20 fundinum í …
Slökkviliðsmenn slökkva í bílum sem mótmælendur á G20 fundinum í Hamborg hafa kveikt í. AFP

Lögregluyfirvöld í Hamborg óskuðu í dag eftir liðsauka frá lögregluyfirvöldum annars staðar í Þýskalandi. Beiðnin er til komin vegna mótmæla og átaka sem upp hafa komið milli mótmælenda og lögreglu í gær og í dag í tengslum við G20 fundinn sem nú er haldinn í borginni.

Lögreglan hefur nú þegar fengið aðstoð frá lögreglu annars staðar í Þýskalandi og Austurríki við að hafa stjórn á aðstæðum, en rúmlega 20.000 lögreglumenn eru nú að störfum í borginni og njóta aðstoðar frá lögregluþyrlum, eftirlitsdróna og háþrýstidælum. Liðsaukinn sem óskað er eftir nú, er hins vegar hugsaður til að lögreglumenn geti fengið hvíld á milli, að því er þýska dagblaðið Die Welt hefur eftir talsmanni lögreglu.

Mótmælendur fá vatnsflaum yfir sig frá lögreglu í mótmælum vegna …
Mótmælendur fá vatnsflaum yfir sig frá lögreglu í mótmælum vegna G20 fundarins í Hamborg. AFP

Til átaka hefur komið milli mót­mæl­enda og lög­reglu í dag og í gær, en í gær særðust 76 lögreglumenn í atökunum. Í dag var fjöldi þeirra lögreglumanna sem særst hefur kominn upp í 159 og þá hafa 45 mótmælendur verið handteknir.

„Aðgerðir eru í gangi gegn þeim of­beld­is­fullu ein­stak­ling­um sem köstuðu bens­ín­sprengj­um og kveiktu í bíl­um í ná­grenni lög­reglu­stöðvar­inn­ar í Alt­ona-hverf­inu,“ sagði í Twitter-skila­boðum embætt­is þýska rík­is­lög­reglu­stjór­ans nú í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert