Trump á von á mjög öflugum samningi

Theresa May ásamt Donald Trump á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í …
Theresa May ásamt Donald Trump á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í Þýskalandi í dag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann eigi von á því að „mjög öflugur“ viðskiptasamningur á milli Bandaríkjanna og Bretlands muni brátt nást.

Trump, sem er staddur á leiðtogafundi G20-ríkjanna sem fer fram í Hamborg í Þýskalandi, sagði jafnframt að hann myndi heimsækja London. Þegar hann var spurður að því hvenær af heimsókninni yrði, svaraði forsetinn að það ætti eftir að ákveða það.

Þetta kemur fram á vef BBC.

Hann mun ræða við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um viðskiptasamkomulag á milli Bretlands og Bandaríkjanna í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þjóðarleiðtogar hafa átt hliðarfundi augliti til auglitis, en May mun einnig funda með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. 

Trump vísaði til þess sérstaka samband sem Bandaríkin og Bretland ættu í. „Það er ekkert ríki sem gæti staðið nær okkar ríki,“ sagði Trump. 

„Við höfum verið að vinna að viðskiptasamningi sem mun verða afar, afar stór, mjög öflugur samningur, frábær fyrir bæði ríki og ég held að við munum ljúka gerð þess samnings afar fljótlega,“ sagði forsetinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert