Trump sagður hafa svifið á Pútín

Trump og Pútín fyrir fund sinn í Hamborg í gær.
Trump og Pútín fyrir fund sinn í Hamborg í gær. AFP

Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, ítrekaði í dag þá fullyrðingu að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði svifið á Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna ásakana í hans garð um afskipti af bandarísku forsetakosningunum.

Bætti Haley við: „Allir vita að Rússar skiptu sér af kosningunum okkar.“

Sagði hún Trump hafa farið á fund Pútíns til að „einfaldlega horfast í augu við hann og láta hann vita af því að, já, við vitum að þið gerðuð þetta og hættið því.“

Hún neitaði þó að svara spurningum um hvers konar afleiðingar þetta hefði í för með sér fyrir stjórnvöld í Kreml.

Trump rofið enn eina hefðina

Yfirvöld beggja ríkja hafa gefið frá sér mjög mismunandi útgáfur af því hvað fór leiðtoganna á milli á fundi þeirra í Hamborg í gær.

Pútín hefur þannig sagst hafa hafnað hvers kyns ásökunum í þessa veru. „Ég fékk þá tilfinningu að svör mín hefðu verið fullnægjandi,“ sagði Pútín fyrr í dag og bætti við að Trump hefði „verið sammála“.

Haley segir neitanir Rússa vera viðbúnar. „Þetta eru Rússar að reyna að halda andlitinu,“ segir hún í samtali við CNN. „Og þeir geta það ekki. Þeir geta það ekki.“

Spurður á blaðamannafundi í dag um þessar mismunandi útgáfur ríkjanna af fundinum sagði Pútín: „Þú ættir að spyrja hann [Trump].“

En Trump sjálfur hefur enn einu sinni rofið hefð Bandaríkjaforseta og fjölmargra annarra leiðtoga við lok G20-fundar, þar sem hann yfirgaf Hamborg án þess að halda blaðamannafund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert