Ósammála áliti kínverskra lækna um örlög Liu

Liu Xia­o­bo og Liu Xia, eiginkona Xiabo. Liu Xia er …
Liu Xia­o­bo og Liu Xia, eiginkona Xiabo. Liu Xia er ljóðskáld og hefur setið í stofufangelsi frá árinu 2010 þegar eiginmaður hennar fékk friðarverðlaun Nóbels. AFP

Bandarískur og þýskur læknir eru ósammála áliti kínverskra krabbameinssérfræðinga um örlög andófsmannsins Liu Xiabo, sem hlaut friðar­verðlaun Nó­bels árið 2010, og greindist með krabbamein.

Liu var dæmdur í ellefu ára fangelsi árið 2009 fyrir að kalla eftir lýðræðislegum umbótum í Kína. Liu greindist með ólæknandi lifrarkrabbamein í maí á þessu ári og fékk þá að fara úr fangelsinu á spítala í Shenyang-héraði.  BBC greinir frá þessu. 

Hingað til hafa læknar hans sagt hann vera of veikan til að ferðast til annarra landa og hljóta þar viðeigandi meðferð. Því verði hann að halda kyrru fyrir í Kína. Læknar frá Bandaríkjunum og Þýskalandi, sem hafa skoðað Liu, eru aftur á móti ósammála þeim staðhæfingum og segja hann færan um að ferðast til að hljóta líknarmeðferð.

Joseph Herman, úr krabbameinsmiðstöð háskólans í Texas, og Markus Büchler, frá skurðlækningadeild háskólans í Heiedlberg, gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir staðhæfðu að læknisfræðilegur brottflutningur yrði að gerast „eins fljótt og hægt er“.

„Þó að það sé alltaf ákveðin áhætta í að færa sjúkling, þá halda báðir læknar að Liu geti verið fluttur, heill á húfi, með viðeigandi læknisfræðilegri aðstoð og umönnun,“ sögðu þeir í yfirlýsingunni.

Liu Xia, eiginkona Liu og ljóðskáld, hefur setið í stofufangelsi frá árinu 2010 þegar eiginmaður hennar fékk friðarverðlaun Nóbels.

Fyrri frétt mbl: Er­lend­ir sér­fræðing­ar fá að meðhöndla Liu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert