Heimsókn Trumps til Bretlands seinkað

Theresa May og Donald Trump hittust á G20-fundinum í Hamborg …
Theresa May og Donald Trump hittust á G20-fundinum í Hamborg á dögunum. AFP

Opinberri heimsókn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til Bretlands hefur verið frestað þar til á næsta ári. Ekki er búið að ákveða dagsetningu fyrir heimsóknina. Þetta kemur fram í frétt AFP-fréttastofunnar.

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, bauð Trump að heimsækja landið þegar hún heimsótti Washington aðeins nokkrum dögum eftir að Trump var vígður í embætti í janúar.

Til stóð að Trump kæmi til Bretlands á þessu ári en búið er að fresta heimsókninni þar til árið 2018. Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar segir bæði Trump og May hafa viljað fresta henni vegna anna. 

Margir hafa velt því fyrir sér hvort Trump hafi enn ekki komið til landsins af hræðslu við mótmæli Breta vegna forsetasetu hans. Þá vakti það einnig athygli að í árlegri ræðu Bretadrottningar fyrir breska þinginu í júní nefndi hún ekki heimsóknina, en venjulega fjallar hún um þær heimsóknir sem eru á döfinni.

Trump staðfesti þó heimsóknina á G20-fundinum í Hamborg á dögunum. Þar hitti hann May og sagði síðan við fréttamenn að hann myndi fara til London. Spurður hvenær sagði hann: „Við finnum út úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert