Jarðarför 22 árum síðar

Fjölskyldur kveðja ástvini sína.
Fjölskyldur kveðja ástvini sína. AFP

Þúsund manns komu saman til að minnast fórnarlamba þjóðarmorðanna í Srebr­enica árið 1995 þegar um átta þúsund múslímar voru myrtir. Jarðneskar leifar 71 fórnarlambs voru bornar til grafar í kirkjugarðinum Potocari sem er nálægt Srebr­enica. Þetta var í fyrsta skipti sem fjölskylda og ættingjar fengu tækifæri til að kveðja ástvini sína með formlegum hætti.  

Á meðal þeirra sem voru borin til grafar var 33 ára gömul kona og sjö einstaklingar sem voru yngri en 18 ára þegar þeir voru myrtir. 

Adela Efendic fylgdi föður sínum til grafar í dag. Hún sagði gott að geta „loksins kvatt“ föður sinn sem var 35 ára gamall þegar hann var myrtur. Hún var sjálf 20 daga gömul þegar þjóðarmorðin áttu sér stað. Fyrir níu árum fannst hluti af líkamsleifum föður hennar í fjöldagröf. Fjölskylda hans hélt í vonina að fleiri líkamshlutar myndu finnast en sú varð ekki raunin. „Við ákváðum því að jarða hann núna svo hann gæti fundið frið,“ sagði Efendic. 

13. júlí 1995 réðust her­sveit­ir Bosn­íu-Serba gegn létt­vopnuðum hol­lensk­um friðargæsluliðum sem reyndu af veik­um mætti að verja þúsund­ir flótta­manna sem höfðu flúið inn í her­stöð þeirra. Enda töldu þeir að her­stöð Sam­einuðu þjóðanna væri ör­uggt skjól. 

Í síðasta mánuði dæmdi hol­lensk­ur áfrýj­un­ar­dóm­stóll hol­lenska ríkið ábyrgt að hluta vegna dauða 350 mús­lím­a þegar þjóðarmorðin voru fram­in í Srebr­enica árið 1995. Rík­inu er gert að greiða hluta af skaðabót­um til fórn­ar­lambanna.

71 fórnarlamb þjóðarmorðanna var borið til grafar í dag.
71 fórnarlamb þjóðarmorðanna var borið til grafar í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert