Trump kemur syni sínum til varnar

Feðgarnir lýsa fréttaflutningi um tengslin við Rússland sem nornaveiðum.
Feðgarnir lýsa fréttaflutningi um tengslin við Rússland sem nornaveiðum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur komið syni sínum til varnar vegna fundarins sem sonur hans átti með rússneskum lögmanni í miðri kosningaherferð á síðasta ári. Hann segir að Trump yngri hafi verið opinn, gegnsær og saklaus. 

Greint er frá málinu á fréttavef breska ríkisútvarpsins. Eftir að Trump yngri sagði við Fox News að hann hefði farið á fund þar sem hann bjóst við að fá afhent gögn um Hillary Clinton, þáverandi forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, skráði forsetinn sig inn á Twitter-reikninginn sinn. 

„Sonur minn stóð sig vel í gær. Hann var opinn, gegnsær og saklaus. Þetta eru stærstu nornaveiðar í stjórnmálasögunni. Sorglegt!“ skrifaði Trump eldri. 

Trump yngri hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa af ásettu ráði átt í samskiptum við Rússa fyrir forsetakosningarnar í nóvember á síðasta ári með það í hyggju að klekkja á Hillary Clinton. Hann sagði við Fox News að fundurinn hefði verið „algjörlega ekkert mál“ en játaði að hann hefði átt að bregðast öðruvísi við. Hann birti tölvu­póst­sam­skipti sín á Twitter í gær stuttu áður en þau birt­ust á vef New York Times. 

Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka hvort og hvernig Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum en frá því að Donald Trump var kjörinn forseti hefur hann legið undir þungum ásökunum vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert