Fresta atkvæðagreiðslu um Obamacare

John McCarin, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins fór í aðgerð á föstudaginn og …
John McCarin, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins fór í aðgerð á föstudaginn og á meðan hann er í veikindaleyfi hefur flokkurinn ekki meirihluta á bak við nýja heilbrigðisfrumvarpið. AFP

Öldungadeild Bandaríkjanna hefur frestað atkvæðagreiðslu vegna nýs heilbrigðisfrumvarps ríkisstjórnar Donalds Trumps, en það stefnir í að mjög mjótt sé á munum milli andstæðinga og stuðningsmanna frumvarpsins. Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain fór á föstudaginn í aðgerð og er nú í veikindaleyfi. Hefur fjarvera hans þau áhrif að stuðningsmenn frumvarpsins telja ekki nægan stuðning meðal þingmanna og var því ákveðið að bíða.

Leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, Mitch McConnell, tilkynnti að atkvæðagreiðslunni hefði verið frestað í gærkvöldi og vísaði hann til vandamála sem hefðu komið upp við að tryggja „einu af vinsælustu málum Repúblikanaflokksins“ meirihluta.

Frumvarpið gengur út á að fella niður svokallað Obamacare sem var komið á í tíð Baracks Obama, fyrri forseta landsins. Með meirihluta á bæði þingi og í öldungadeild bjuggust repúblikanar við því að koma frumvarpinu í gegn fljótlega eftir að Donald Trump tók við embætti forseta í byrjun árs. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri.

Tveir öldungadeildarþingmenn flokksins gáfu það út í byrjun mánaðarins að þeir myndu ekki samþykkja frumvarpið óbreytt, en það þýðir að aðeins var eins manns meirihluti fyrir því. Með veikindum McCains er sá meirihluti ekki fyrir hendi og því lítið annað í stöðunni en að fresta atkvæðagreiðslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert