Barnaníð í skjóli kirkjunnar

AFP

Enn á ný hafa ásakanir um kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar komið upp á yfirborðið, en nú hefur þýsk rannsóknarnefnd komist að því að minnst 547 drengir í þýskum kórskóla hafi verið beittir kynferðislegu- eða líkamlegu ofbeldi.

Ásakanir um kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar hafa víða komið upp á undanförnum árum, meðal annars hér á landi. Hér eftir verður farið yfir nokkur stór mál sem snúa að kynferðisofbeldi innan kirkjunnar. Greinin er byggð á samantekt AFP fréttastofunnar, auk þess sem blaðamaður fer stuttlega yfir rannsókn á kaþólsku kirkjunni hér á landi.

Ísland

Fyrst ber að nefna mál sem kom upp hér á landi, en rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu árið 2012 að kirkjan hefði reynt að þagga niður upplýsingar um ofbeldi í Landakotsskóla. Alls sögðust 8 hafa sætt kyn­ferðis­legu of­beldi. 27 til viðbótar lýstu andlegu ofbeldi og í fáeinum tilvikum líkamlegu.

Séra Geor­ge, sem var skóla­stjóri Landa­kots­skóla, og Mar­grét Müller, þýsk kennslu­kona við skól­ann, voru bor­in þung­um sök­um um gróft of­beldi af fyrr­ver­andi nem­end­um og gest­um sum­ar­búðanna á árunum 1954 til 1990.

Alls óskuðu 33 einstaklingar eftir sanngirnisbótum frá íslenska ríkinu vegna illrar meðferðar og ofbeldis sem þeir urðu fyrir af hálfu kaþólsku kirkjunnar hér á landi. Öllum einstaklingunum, 18 körlum og 15 konum, var sent sáttaboð um bótaupphæð sem er á bilinu 2,2 til 6 milljón krónur.

Í niðurstöðum nefndarinnar sögðust átta hafa sætt kynferðislegu ofbeldi.
Í niðurstöðum nefndarinnar sögðust átta hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Þýskaland

Frá árinu 2010 hafa hundruð mála komist í kastljósið um kynferðisofbeldi gegn börnum innan kirkjunnar.

Meðal þeirra mála sem komið hafa upp í Þýskalandi er mál jesúítapresta í Canisius skólanum í Berlín. Þrír prestar hið minnsta viðurkenndu árið 2010 að hafa beitt nemendur sína kynferðisofbeldi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Fjöldi fórnarlamba steig fram.

Málið sem kom upp í landinu í dag snýr að kórdrengjum sem sættu ofbeldi í skóla í landinu. Þeir lýsa veru sinni í kórn­um sem „fang­elsi“, „hel­víti“ og „út­rým­ing­ar­búðum“. Þetta kem­ur fram í skýrslu nefnd­ar sem rann­sakaði ásak­an­ir um kyn­ferðis­brot inn­an drengjakórs Re­gens­burg-dóm­kirkj­unn­ar sem kynnt var í dag. 

Ástralía

Opinber nefnd hóf störf í Ástralíu árið 2013 til að kafa ofan í mál sem vörðuðu kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar. Komst nefndin að því fyrr á þessu ári að 4.444 kynferðisofbeldismál gegn börnum hefðu verið tilkynnt kirkjuyfirvöldum í landinu. Höfðu brotin átt sér stað á yfir þúsund kaþólskum stofnunum á árunum 1980 til 2015. Voru alls 7% kaþólskra presta í landinu undir grun um að hafa níðst kynferðislega á börnum, en ásakanirnar voru aldrei rannsakaðar af kirkjuyfirvöldum. Verst var staðan í munkareglu heilags Jóhannesar, þar sem 40 prósent bræðra í reglunni voru sakaðir um kynferðisofbeldi gegn börnum.

Í kjölfar rannsóknar nefndarinnar var George Pell, kardínáli og fjármálastjóri Páfagarðs, ákærður í Ástralíu í síðasta mánuði fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum. Meint brot Pells ná yfir tvo áratugi og komu ásakanirnar í sviðsljósið aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð þegar reynt var að hylma yfir barnaníð af hálfu kirkjunnar. Pell hefur neitað ásökununum, en að sögn áströlsku lögreglunnar hafa nokkrir kært Pell fyrir kynferðisbrot. Ekki er enn komin niðurstaða í málið.

Kardínálinn George Pell hefur verið ákærður í Ástralíu.
Kardínálinn George Pell hefur verið ákærður í Ástralíu. AFP

Kanada

Í lok níunda áratugs síðustu aldar komu upp ásakanir um misnotkun á börnum á munaðarleysingjahæli í Nýfundnalandi á árunum 1950 til 1960. Yfirmenn kirkjunnar voru sakaðir um að hafa hylmt yfir brotin.

Bandaríkin

Á árunum 1950 til 2013 bárust kaþólsku kirkjunni í Bandaríkjunum 17 þúsund kvartanir frá fólki sem sagðist hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu 6.400 klerka á árunum 1950 til 1980. Árið 2012 sögðust sérfræðingar áætla að alls hefðu um hundrað þúsund kynferðisbrot verið framin innan kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum.

Hafa um fjögur prósent presta í kirkjunni verið sakaðir um kynferðisofbeldi, og þegar hafa bandarísk kirkjuyfirvöld eytt milljörðum dollara í málsóknir gegn þeim.

Á meðal presta sem reknir voru úr kirkjunni fyrir að hylma yfir eða taka þátt í brotum voru kardínálinn Bernard Law í Boston, Roger Mahony í Los Angeles, Robert Finn í Kansas og John Clayton Nienstedt í Minnesota.

Írland

Ásakanir um kynferðisofbeldi innan kaþólskra kirkna í Írlandi komu fram í sviðsljósið á síðustu öld og náðu yfir langt tímabil. Tala þolenda undir 18 ára aldri var áætluð um 14.500. Nokkrum biskupum og prestum sem ásakaðir voru um brot eða það að hylma yfir þau hefur verið refsað.

Árið 2014 steig kardínálinn Sean Brady fram með afsökunarbeiðni. Hann hafði verið sakaður um að hylma yfir barnaníð alræmds barnaníðings, séra Brendans Smyth, sem var loks handtekinn og dæmdur á tíunda áratug síðustu aldar.

Ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi var mótmælt á götum …
Ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi var mótmælt á götum úti árið 2013. AFP

Austurríki

Tvö mál hafa komið upp í landinu sem hafa orðið til þess að Vatíkanið hefur vikið biskupum úr embætti. Annars vegar  var erkibiskupnum Hans Hermann Groeer vikið úr embætti sínu í Vínarborg árið 1995, og hins vegar biskupnum í Sankt-Poelten, Kurt Krenn, árið 2004. Í síðarnefnda málinu fundust myndir í tölvum skólans af prestum og guðfræðinemum í ástarlotum og í kynferðislegum athöfnum.

Belgía

Árið 2010 sagði biskupinn af Bruges, Ranger Vangheluwe, af sér eftir að hafa játað kynferðisbrot gegn tveimur frændum sínum. Frá árinu 2012 hefur kaþólska kirkjan í Belgíu fengið hundruð kvartana um kynferðisbrot innan kirkjunnar og greitt 4,13 milljónir evra í sanngirnisbætur.

Holland

Síðla árs 2011 var birt rannsókn þar sem fram kom að nokkrir tugir þúsunda ungmenna í landinu hefðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar í Hollandi á árunum 1945 til 2010. Um 800 prestar hafa verið nefndir, grunaðir um brotin.

Ásakanir um kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar hafa einnig komið fram í öðrum löndum, svo sem Frakklandi, Mexíkó og Póllandi. Frans Páfi hefur sagt innra skipulag kirkjunnar nú vera breytt, og að biskupum sem hylma yfir brot presta verði refsað. Þolendur eru hins vegar ekki bjartsýnir um að margt muni breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert