Bjargað eftir 8 daga í eyðimörkinni

Hundruð flóttamanna hafa látist í Sahara eyðimörkinni á leið til …
Hundruð flóttamanna hafa látist í Sahara eyðimörkinni á leið til Agadez. AFP

23 vestur-afrískir flóttamenn, þar á meðal 7 ára stúlka, fundust á lífi í dag í Sahara-eyðimörkinni eftir að hafa verið yfirgefnir þar. Fólkið hafði verið í eyðimörkinni í átta daga, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðlegu flóttamannasamtökunum (IOM). AFP-fréttaveitan greinir frá.

Flóttamennirnir fundust í um 300 kílómetra fjarlægð frá nígersku borginni Agadez, þar sem algengt er að afrískir flóttamenn fari í gegn til að freista þess að komast til Evrópu.

Hópurinn, sem  samanstóð af fólki frá Gambíu og Senegal, hafði verið yfirgefinn af ökumanni er átti að koma þeim til Agadez. Fólkið beið í sex daga í þeirri von að ökumaðurinn snéri aftur, áður en það gekk af stað. Hópurinn hafði verið á göngu í tvo daga þegar yfirvöld í Agadez komu loks auga á hann og gerðu flóttamannasamtökunum viðvart.

Það er í raun orðið daglegt brauð að flóttamönnum sé bjargað úr eyðimörkinni eða þá að þeir finnist látnir. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Agadez hafa hundruð vestur-afrískra flóttamanna fundist látnar á svæðinu. Í maí og júní fundust til að mynda 52 flóttamenn látnir í eyðimörkinni, þar á meðal nokkur börn. Á sama tíma hurfu þar 50 einstaklingar sem allir eru taldir af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert