Gífurleg fjölgun heimilislausra í LA

Ferðamenn þurfa stundum nánast að klofa yfir sofandi fólk á …
Ferðamenn þurfa stundum nánast að klofa yfir sofandi fólk á götum úti. AFP

Heimilislausum á götum Los Angeles hefur fjölgað um 23 prósent síðastliðið ár og er ástandið er orðið mjög sýnilegt almenningi í borginni. Þeir sem ekki eiga í nein hús að venda hafa dreift sér um göturnar og jafnvel reist tjaldbúðir til að hafa eitthvað athvarf. Margir vilja frekar sofa á götunni heldur en að leita í gistiskýli.

Ferðamenn sem ganga um hina frægu breiðgötu Hollywood Boulevard, eða Walk of Fame, þurfa jafnvel að klofa yfir sofandi fólk sem hefur vafið sig inn í skítug teppi til að þurfa ekki að liggja á harðri stéttinni. Verða margir miður sín yfir ástandinu.

Verslunareigendur neyðast einnig til að nota háþrýstidælur til að þrífa þvag og annan úrgang af gangstéttum fyrir framan verslanir sínar á hverjum morgni, að fram kemur í frétt BBC.

Heimilslausir hafa reist tjaldbúðir víða á götum borgarinnar.
Heimilslausir hafa reist tjaldbúðir víða á götum borgarinnar. AFP

Ástandið er verra en nokkru sinni, að sögn aðgerðarsinna sem BBC ræddi við. „Ég hef starfað með heimilislausum í 31 ár og hef aldrei séð ástandið svona slæmt,“ sagði aðgerðarsinninn Ted Hayes í samtali við BBC. Hann segir að með millistéttarvæðingu miðborgarinnar hafi heimilislausir dreifst meira um borgina. Hér áður fyrr hafi flestir haldið sig við sama svæðið.

Ungu fólki fjölgar um 64 prósent 

Talið er að um 58 þúsund einstaklingar séu heimilislausir í borginni, en nágrannasvæðin, eins og Orange County eru að glíma við sama vanda.

Talning heimilislausra var gerð af 7.700 sjálfboðaliðum á þriggja sólarhringa tímabili í janúar síðastliðnum. Ungu fólki á aldrinum 18 til 24 ára virðist vera að fjölga mest, en talið er að heimilislausum á þessu aldursbili hafi fjölgað um 64 prósent síðastliðið ár. Þá hefur heimilislausum börnum fjölgað um 41 prósent.

Kerry Morrisson, framkvæmdastjóri samtaka húseigenda í Hollywood, segir þessar tölur vera ótrúlegar. Hún segir fyrirtækjaeigendur í samstarfi við yfirvöld, hafi reynt að sporna við vandanum með ýmsum hætti síðustu ár. Það sé hins vegar ljóst að nú sé baráttan að tapast.

Mikil fjölgun hefur orðið í hópi heimilislausra síðastliðið ár.
Mikil fjölgun hefur orðið í hópi heimilislausra síðastliðið ár. AFP

„Það er eitthvað að gerast núna, við finnum öll fyrir því. Það hefur augljóslega mikið breyst á síðustu tveimur árum,“ sagði Morrison. Hún telur að tvær ástæður sé fyrir þessari miklu fjölgun heimilislausra. Í fyrsta lagi hækkandi fasteigna- og leiguverð, og í öðru lagi ný löggjöf sem veiti föngum reynslulausn fyrr en áður, margir úr þeirra hópi eiga ekki nein hús að venda og enda því á götunni.

Þar fyrir utan er Los Angeles sú borg sem margir líta á sem borg tækifæranna og flytjast þangað til að freista gæfunnar. Það endar hins vegar ekki alltaf vel.

Óttast lítið hreinlæti í gistiskýlinu

Kitty og 34 ára gömul dóttir hennar, Sura, sem blaðamaður BBC hitti á götunni í Hollywood, voru í þeim hópi. Þær ætluðu að hefja nýtt líf í Kaliforníu en búa nú á götunni í Hollywood. Þær segja lífið á götunni geta verið mjög erfitt og lýjandi.

Þetta er ekki óalgeng sjón í Los Angeles.
Þetta er ekki óalgeng sjón í Los Angeles. AFP

Líkt og margt ungt heimilislaust fólk kýs Kay frekar að sofa á götunni heldur en í gistiskýli. Hann hefur áhyggjur hreinlætisaðstöðunni þar. Kay segir Skid Row, stærstu nýlendu heimilislausra í Los Angeles, vera ógnvekjandi.

Hin 26 ára gamla Christin býr við nöturlegar aðstæður við afrein af hraðbrautinni. Hún er mjög meðvituð um stéttaskiptinguna í Los Angeles. „Maður sér fyrir sér hrein og dýr híbýli, en ekki heimilislaust fólk á hverju götuhorni, föt og rusl út um allt. Fólk kom hingað til að láta drauma sína rætast. Ég held það gerist ekki lengur.“

Spurð um sína eigin drauma svaraði Christin: „Mig langar að syngja, en ég veit ekki hvað mun gerast þarna úti.“

Hér má lesa umfjöllun BBB um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert