Kórstjóranum lýst sem ofstækismanni

AFP

Fyrrverandi kórstjóri drengjakórs Regensburger-Dómkirkjunnar í Þýsklandi, þar sem yfir 500 drengir sættu kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi á nokkurra áratuga tímabili, er sagður hafa verið ofstækismaður sem nemendur hans hræddust. Það er eftirmaður kórstjórans sem lét orðin falla. AFP fréttastofan greinir frá

Georg Ratzinger, eldri bróðir Benedikts fyrrverandi páfa, stjórnaði kórnum fræga á árunum 1964 til 1994. Roland Buechner, eftirmaður hans, sagði í samtali við þýska vikublaðið Die Zeit, að Ratzinger hefði verið sérlega hvatvís ofstækismaður og mjög vægðarlaus þegar hann kom á framfæri sínum hugmyndum um tónlistarlegan aga.

„Svo gat hann verið ljúfur sem lamb í kjölfarið. Sumir nemenda hans litu upp til hans á meðan aðrir óttuðust að hann myndi lemja þá,“ sagði Buechner. Hann vill meina að undir hans tónsprota hafi þróast kerfisbundinn ótti á meðal kórdrengjanna.

„Hann var ekki bara að slá á fingur, heldur voru þetta virkilegar líkamsmeiðingar. Það var mikil reiði og áverkar,“ sagði Buechner jafnframt.

Ratzinger sjálfur, sem er 93 ára, hefur sagt að hann kannist ekki við að ofbeldi hafi viðgengist í skólanum.

Kór­inn sem um ræðir á sér þúsund ára langa sögu. Árið 2010 bár­ust frétt­ir um að inn­an hans hefðu viðgeng­ist kyn­ferðis­brot en það var um svipað leyti og hul­unni var svipt af fjöl­mörg­um slík­um mál­um inn­an kaþólsku kirkj­unn­ar. Á þriðjudag var birt skýrsla nefnda sem rannsakað hafa ásakanir um kyn­ferðis­brot inn­an drengjakórs Re­gens­burg-dóm­kirkj­unn­ar sem kynnt var í dag. 

Lög­fræðing­ur­inn Ulrich We­ber fór fyr­ir rann­sókn­inni, en í skýrslunni kem­ur fram að á ára­bil­inu 1945 og þar til snemma á tí­unda ára­tug síðustu ald­ar hafi hann fundið 67 dæmi um kyn­ferðis­lega mis­notk­un og 500 um ann­ars kon­ar lík­am­legt of­beldi. Sum­ir dreng­irn­ir voru beitt­ir bæði kyn­ferðis­legu og lík­am­legu of­beldi.

We­ber seg­ir að mik­il þögg­un hafi ríkt um málið og seg­ir ábyrgðina meðal annars hvíla á fyrr­greindum Ratz­in­ger. We­ber seg­ir hann hafa brugðist með því að grípa ekki í taum­ana. Í stað þess hafi hann litið und­an og ekki skipt sér af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert