Stóðu og hlógu að drukknandi manni

Skjáskot úr myndskeiði táninganna.
Skjáskot úr myndskeiði táninganna. Skjáskot/Saksóknari Flórídaríkis

Fimm táningar, sem tóku upp á myndband þegar karlmaður á fertugsaldri drukknaði í tjörn í Flórída, verða ekki ákærðir. Þetta er niðurstaða lögregluyfirvalda vestanhafs.

Myndbandið hefur vakið mikinn óhug en táningarnir gerðu ekkert til að hjálpa manninum, auk þess sem þeir hringdu ekki í neyðarlínuna. Eftir að hafa rannsakað myndbandið segja yfirvöld hins vegar að þeir hafi ekki gerst brotlegir við lög.

„Í Flórídaríki eru engin lög þar sem kveðið er á um að fólki sé skylt að veita aðstoð eða kalla á aðstoð þegar fólk er í háska,“ sagði Yvonne Martinez, talsmaður lögreglunnar, í dag.

Síðar sagði hún hins vegar að lögreglan héldi áfram að leita að öðrum lögum sem kynnu að hafa verið brotin við athæfið.

Maðurinn, sem hét Jamel Dunn og var 31 árs, lést 9. júlí. Lík hans fannst ekki fyrr en fimm dögum síðar í tjörninni, sem er í bænum Cocoa í nágrenni Orlando.

Eftir að rannsókn var hafin á andláti Dunns fékk lögregla ábendingu frá aðstandanda hans sem hafði séð myndskeiðið á vefnum. Höfðu þá táningarnir þegar deilt því til vina sinna.

New York Times greinir frá.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert