Barnalög sem hafa þveröfug áhrif

Lee Jong-Rak við barnalúguna.
Lee Jong-Rak við barnalúguna. AFP

Unga konan erfiðar upp stigann, meðfram skrautlegum veggjum, með dóttur sína í fanginu. Þegar upp er komið stingur hún barninu gegnum lúgu í veggnum og gengur á braut. Upptökur úr öryggismyndvavélum sýna hana leggja hendur á höfuð sér en hún lítur ekki við. Þetta er líklega í síðasta sinn sem hún sér dóttur sína.

Suður-Kórea hefur tekið gríðarlegum breytingum frá stríðstímum og er í dag fjórða stærsta hagkerfi Asíu og aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Landið var eitt sinn stærsta uppspretta umkomulausra barna; vegna fátæktar, lítilfjörlegs regluverks og menningar þar sem kynþáttahyggja og skömm hafa spilað stórt hlutverk.

Um 110.000 börn hafa verið ættleidd frá Suður-Kóreu til Bandaríkjanna frá 1950 en þeim hefur fækkað síðustu ár. Fæðingartíðni í landinu hefur hrapað, m.a. vegna kostnaðarins sem fellur til við barneignir og menningarlegrar áherslu á að helga vinnunni líf sitt.

Yfirgefnum börnum hefur hins vegar fjölgað, og það í kjölfar lagasetningar sem var ætlað að vernda börn. Fleiri breytingar eru í farvatninu, sem aðgerðasinnar segja að gætu gert illt verra.

Grafið lifandi

Konan á myndbandsupptökunum er ein af fleiri en 1.000 konum sem hafa lagt leið sína að byggingu í verkamannahverfi á útjaðri Seúl. Húsið er í eigu Jusarang-kirkjunnar og hefur m.a. að geyma hitastýrða lúgu, þar sem foreldrar geta skilið börn sín eftir án þess að þurfa að gefa upp nafn.

Börnin sem sett eru í lúguna, um 200 á ári, fjögur á viku, eru oftar en ekki blóðug; stundum er naflastrengurinn enn áfastur.

Í Suður-Kóreu hefur löngum þótt mikilvægt að viðhalda fjölskyldunni gegnum …
Í Suður-Kóreu hefur löngum þótt mikilvægt að viðhalda fjölskyldunni gegnum kynslóðirnar og það þykir tabú að ala upp annarra manna börn. AFP

Það var presturinn Lee Jong-Rak sem opnaði barnaheimilið eftir að hafa haft fregnir af því að fólk væri að yfirgefa börn undir beru lofti eða á almenningssalernum, þar sem þau eiga á hættu á að verða úti.

„Sumir táningar eignast börnin í yfirgefnum húsum eða á almenningssalernum. Þeir vefja þau í gamlar skyrtur eða handklæði og koma með þau til okkar,“ segir hann.

Í eitt skipti kom ungt par með barn sem var þakið ryki. Faðirinn hafði ætlað sér að grafa það lifandi. „Þegar pabbinn hóf að moka yfir það gat móðirin ekki horft upp á það og bjargaði barninu,“ segir presturinn.

Smán og skömm

Árið 2010, þegar barnaheimilið var opnað, voru aðeins fjögur börn skilin eftir í lúgunni. 

Á þeim tíma þurftu konur sem vildu láta ættleiða börnin sín að gefa skriflegt leyfi en gáfu oft upp rangar upplýsingar eða engar. Ættleiðingamiðlarar horfðu í hina áttina.

Tveimur árum síðar samþykkti þingið lög sem bönnuðu ættleiðingamiðlurum að afgreiða mál án ítarlegra gagna en lögunum var ætlað að uppfylla skilyrði Haag-sáttmálans, sem veitir börnum rétt til að hafa uppi á blóðforeldrum sínum. Þá voru gerðar kröfur um að allar ættleiðingar væru samþykktar af dómstólum.

Flest þeirra barna sem voru ættleidd til útlanda þegar ættleiðingar …
Flest þeirra barna sem voru ættleidd til útlanda þegar ættleiðingar voru leyfðar voru börn bandarískra hermanna og kóreskra mæðra. AFP

Árið 2013 voru 224 börn yfirgefin á barnaheimilinu af foreldrum sem vildu vera nafnlausir.

Fátækar einstæðar mæður eru stærsti hópurinn. Ógiftum konum sem kjósa að eiga börnin sín fjölgar í Suður-Kóreu en þær sæta oft útskúfun og eiga erfitt með að finna menn sem sætta sig við fortíð þeirra.

Þegar fólk sækir um vinnu er fjölskyldusaga þess oftar en ekki könnuð og sú athugun leiðir í ljós ef kona hefur eignast barn og gefið það frá sér.

Lúga Jusarang-kirkjunnar starfar á gráu svæði.

Yfirvöld eru meðvituð um tilvist hennar og velferðarráðuneytið, sem telur lúguna með í tölfræði sinni, hefur hvorki tekið afstöðu með henni né á móti. „Hún bjargar nýfæddu lífi,“ segir embættismaðurinn Kim Hye-Ji.

En hverfisyfirvöld í Gwanak hafa hvatt prestinn til að loka. „Við álítum barnalúguna ólögmæta starfsemi sem hvetur til þess að börn séu yfirgefin,“ segir fulltrúinn Min Seo-Young.

Autt blað

Börnin dvelja á barnaheimilinu í nokkra daga en eru síðan flutt á munaðarleysingjaheimili, þar sem þau bíða þess að eignast fjölskyldu.

Ættleiðingar mæta hins vegar enn fordómum í Suður-Kóreu, þar sem mikil áhersla er lögð á að viðhalda blóðlínunni gegnum kynslóðirnar og mörgum þykir ótækt að ala upp börn annarra.

Þá hafa íbúar landsins löngum verið uppteknir af því að viðhalda „kynþáttahreinleika“; mörg þeirra barna sem voru ættleidd til útlanda þegar opnað var fyrir ættleiðingar voru börn bandarískra hermanna og kóreskra mæðra.

„Það er ákaflega erfitt að finna jafnvægið milli raunveruleikans og …
„Það er ákaflega erfitt að finna jafnvægið milli raunveruleikans og alþjóðlegra viðmiða,“ segir Cho Tae-Seung. AFP

Ættleiðingum út fyrir landsteinana fækkaði um þrjá fjórðuhluta í kjölfar lagasetningarinnar árið 2012, þar sem reglur voru hertar bæði fyrir þá foreldra sem vildu gefa barn og þá sem vildu ættleiða. 

Fjöldinn fór úr 916 árið 2012 í 236 árið 2013.

Nú segjast stjórnvöld í Seúl ætla að fullgilda Haag-sáttmálann fyrir árslok en samkvæmt honum skal freista þess að ættleiða börn innanlands frekar en utanlands.

Embættismenn segja standa til að koma ættleiðingarferlinu öllu í fastar skorður og hafa eftirlit með því af hverju foreldrar vilja gefa börn sín, hvort foreldrar sem vilja ættleiða séu raunverulega til þess hæfir og að börnin muni í framtíðinni geta fundið blóðforeldra sína.

Cho Tae-Seung, kollegi Lee, hefur áhyggjur af því að hinar hertu reglur muni verða til þess að enn fleiri konur kjósa að yfirgefa börn sín við hættulegar aðstæður.

„Það er ákaflega erfitt að finna jafnvægið milli raunveruleikans og alþjóðlegra viðmiða,“ segir hann. Hann vill að mæðrum verði gert kleift að fæða börn sín við öruggar aðstæður og gefa þau frá sér nafnlaust.

Við hlið lúgunnar í veggnum er að finna eyðublöð þar sem foreldrar geta ritað nafn barnsins, fæðingardag og gefið upplýsingar um bólusetningar.

Konan á myndbandsupptökunni lét þau óhreyfð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert