„Sveitarfélagið þarf að greiða af sínum lánum“

Umönnunarheimilið krefst húsaleigu í þrjá mánuði fyrir íbúð hinnar látnu.
Umönnunarheimilið krefst húsaleigu í þrjá mánuði fyrir íbúð hinnar látnu. Getty Images/iStockphoto

„Þetta finnst okkur óréttlátt, hvernig er hægt að ætlast til þess að látin manneskja reiði fram húsaleigu af ævisparnaði sínum?“ segir sonur konu sem lést 31. maí en umönnunarheimilið sem hún bjó á undir það síðasta í sveitarfélaginu Sortland í Nordland-fylki í Noregi krefst húsaleigu í þrjá mánuði fyrir íbúð hinnar látnu vegna samningsbundins uppsagnarfrests.

Það er norðurnorska dagblaðið Vesterålen sem fyrst greinir frá þessu en dagblaðið VG hefur einnig tekið málið upp á sína arma.

Afkomendur hinnar látnu vilja ekki koma fram undir nafni í fjölmiðlum en þykir það býsna langt seilst hjá sveitarfélaginu að krefjast 13.000 norskra króna, rúmlega 170.000 íslenskra, á mánuði allt fram á haust.

Uppsagnarfrestur út yfir gröf og dauða

„Móðir þeirra lést 31. maí og leigunni var þar með ekki sagt upp fyrr en þann dag. Þá hefst þriggja mánaða uppsagnarfrestur og hann stendur nema í því tilfelli að nýr leigjandi komi strax inn, sveitarfélagið þarf að greiða af sínum lánum eins og aðrir,“ segir Stig Johansen hjá fasteignasviði Sortland og bætir því við að dauðinn firri engan uppsagnarfresti.

Ættingjarnir gefa lítið fyrir þennan rökstuðning og benda á að fólk standi á biðlista eftir þjónustuíbúðum á vegum Sortland og nýr leigjandi ætti því að hafa fundist strax. Johansen telur svo ekki þurfa að vera, algengt sé að sinna þurfi viðhaldi, þrifum og öðru eftir að íbúar safnast til feðra sinna og þá standi hinn samningsbundni þriggja mánaða uppsagnarfrestur líkt og stafur á bók.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert