Trump opinn fyrir refsiaðgerðum gegn Rússum

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður opinn fyrir því að grípa …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður opinn fyrir því að grípa til refsiaðgerða gegn Rússum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er opinn fyrir því að undirrita löggjöf um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum, að sögn fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins.

Sam­komu­lag náðist í gær á milli þing­flokka re­públi­kana og demó­krata í Banda­ríkj­un­um um nýja lög­gjöf sem veit­ir stjórn­völd­um aukn­ar heim­ild­ir til að refsa Rúss­um fyr­ir meint af­skipti af bandarísku for­seta­kosn­ing­un­um á síðasta ári.

Nýja lög­gjöf­in tak­mark­ar jafn­framt heim­ild­ir Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta til að aflétta hvers kyns refsiaðgerðum sem banda­rísk stjórn­völd hafa samþykkt að beita gegn yf­ir­völd­um í Rússlandi. Refsiaðgerðirnar sem þingflokkarnir náðu saman um taka einnig til Írans og Norður-Kóreu.

Reuters segir stjórn Trumps hafa skipt um skoðun á frumvarpinu, sem forsetinn var áður mótfallinn. Er hugarfarsbreytingin sögð hafa orðið eftir að þær breytingar voru gerðar á frumvarpinu að það tekur nú líka til refsiaðgerða gegn Norður-Kóreu. Stjórnin muni þó ekki gera endanlega upp hug sinn varðandi frumvarpið fyrr en endanleg útgáfa þess liggur fyrir.

Vilja refsa Rússum 

Trump hefur mætt andstöðu þingmanna bæði Repúblikana- og Demókrataflokksins vegna tilrauna sinna til að bæta samskiptin við ráðamenn í Rússlandi. Hafa meint afskipti Rússa af forsetakosningunum sem og samskipti starfsmanna framboðs Trumps haft töluverð áhrif þar á.

Segir Reuters að með frumvarpinu nú vilji þingmenn refsa Rússum fyrir innlimun Krímskaga árið 2014 og fyrir meint afskipti sín af forsetakosningunum. Pútín hefur alfarið neitað því að rússnesk stjórnvöld hafi haft nokkra aðkomu að kosningunum.

Stjórn Trumps hefur á undanförnum vikum fundað með þingmönnum til að mótmæla vissum hlutum frumvarpsins, m.a. því að forsetinn þurfi samþykki þingheims áður en hann afléttir refsiaðgerðum.

„Við styðjum frumvarpið eins og það er nú og munum halda áfram að vinna með fulltrúa- og öldungadeildinni til að koma á refsiaðgerðum gegn Rússum þar til staðan í Úkraínu hefur verið leyst, sem hún svo sannarlega er ekki núna,“ sagði Sarah Sanders fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins í viðtali á ABC-sjónvarpsstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert