24 létust í sjálfsmorðsárás í Kabúl

Starfsmenn sjúkrahússins í Kabúl hlúa að særðum einstaklingum eftir sjálfsmorðsárásina.
Starfsmenn sjúkrahússins í Kabúl hlúa að særðum einstaklingum eftir sjálfsmorðsárásina. AFP

Að minnsta kosti 24 létu lífið í sjálfsmorðsárás í Shia-hverfinu í vesturhluta Kabúl, höfuðborgar Afganistans, í morgun. Að minnsta kosti 42 til viðbótar eru særðir eftir árásina, að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins. BBC greinir frá.

Sprengjan sprakk í rútu opinberra starfsmanna, námaverkamanna á leið til vinnu. Sprengjan sprakk nálægt heimili þingmannsins Mohammads Mohaqiqs og hefur svæðið verið lokað af. „Við gerum ráð fyrir að bílsprengjunni hafi verið ætlað að springa við heimili Mohaqiqs en öryggisverðir komu í veg fyrir það,“ segir talsmaður lögreglunnar. 

Enginn hefur enn lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér. Hins vegar hafa Ríki íslams og talíbanar lýst ábyrgð á þeim sjálfsmorðsárásum sem hafa verið gerðar í Kabúl undanfarið.

Sjálfsmorðsárásir hafa verið tíðar í Kabúl undanfarið. Í maí létust að minnsta kosti 150 í sjálfsmorðsárás. Að minnsta kosti 1.662  óbreyttir borgarar hafa látið lífið á síðasta hálfa ári í Afganistan, þar af 20% þeirra í höfuðborginni, samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert