Æ fleiri bregða fyrir sig málfari innflytjenda

Fólk á rölti um Akerbryggjuna í Ósló. Þriðji hver íbúi …
Fólk á rölti um Akerbryggjuna í Ósló. Þriðji hver íbúi Óslóar á sér einhvers konar innflytjendabakgrunn. mbl.is/Golli

Árið 2005 réðst ungur heimspekingur og málvísindaáhugamaður, Andreas E. Østby, í það verkefni að gefa út Kebabnorska orðabók, rétt eins og á Íslandi var gefin út Orðabók um slangur, slettur og bannorð upp úr 1980. Í bók sinni leitaðist Østby við að útskýra á einfaldan hátt hvað orð á borð við „fluser“ (peningar), „bauer“ (löggan), „sjpa“ (flott, „kúl“) og mörg fleiri tákna í raun en slanguryrði bókarinnar rekja flest uppruna sinn til barna innflytjenda.

Nú er svo komið að slangur þetta, sem ekki bara á sér orð og orð á stangli heldur heilar setningar, er orðið útbreitt í notkun meðal innfæddra Norðmanna sem eiga sér engan innflytjendabakgrunn aftur í ættir og hefur sú staðreynd vakið áhuga Bente Ailin Svendsen, prófessors í norsku sem öðru tungumáli við Háskólann í Ósló.

228 móðurmál í skólunum

Hennar bíður ærið verkefni, þriðji hver íbúi Óslóar á sér einhvers konar innflytjendabakgrunn og í skólum höfuðborgarinnar einnar eiga nemendur sér samtals 228 mismunandi móðurmál samkvæmt tölum sem norska hagstofan hefur gefið út. „Margir þeirra sem alast upp innan um fólk með ólíkan tungumálabakgrunn þróa með sér málnotkun sem auðveldlega má túlka þannig að viðkomandi eigi sér annað móðurmál en norsku,“ útskýrir Svendsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Viðfangsefni hennar takmarkast ekki við Ósló og Noreg heldur hyggst hún í samstarfi við fleiri mávísindamenn kanna notkun og útbreiðslu götumáls í höfuðborgum Skandinavíu. Svendsen segir viðfangsefnið heillandi, götumálið sé í stöðugri þróun og notkun þess dreifist nú óháð þjóðernislegum uppruna.

„Ekkert rugl, þú ert norskur!“

Isak Peter Brodahl býr í Grünerløkka-hverfinu í Ósló. Hann er þeirrar skoðunar að innfæddir Norðmenn sem bregði fyrir sig kebabnorsku fái fordómagusuna yfir sig þegar í stað. „Ef þú kemur inn á vinnustað og hefur þar samræður á kebabnorsku lítur fólk á þig og hugsar með sér: „Þetta sleppur ef þú norskur Pakistani eða norskur Gambíumaður [n. „norskpakistaner, norskgambier“] en ekkert rugl, þú ert alnorskur!“,“ segir Brodahl.

Hann segist hafa dregið úr notkun götumáls síðan hann var unglingur og í dag noti hann það af vissri varkárni. „Þegar ég kasta fram einhverju slangri nú er orðið er það eingöngu við viðeigandi aðstæður en ég finn að ég haga orðavali mínu allt öðruvísi þegar ég ræði við eldra fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert