Dæmdur 20 árum eftir hvarf sonarins

Drengurinn, sem kallaður er Peter Boy, hvarf árið 1997.
Drengurinn, sem kallaður er Peter Boy, hvarf árið 1997.

Faðir sex ára gamals drengs sem hvarf fyrir tuttugu árum var á mánudag dæmdur í 20 ára fangelsi á Havaí fyrir manndráp. Sagði hann saksóknurum frá því hvert hann hefði farið með lík sonar síns.

Maðurinn, sem heitir Peter Kema, þarf að sitja inni í minnst sex ár og átta mánuði að því er fram kemur í frétt CBS-fréttastofunnar. Kema sagði lögreglu og saksóknurum upprunalega frá staðnum í apríl, en vatn hindraði þá í að finna nokkrar líkamsleifar.

Kema tók síðar lygapróf þar sem fram kom að hann væri að segja satt um staðinn sem þar sem hann losaði sig við lík sonar síns. 

Saksóknarar telja að drengurinn hafi verið beittur ofbeldi og hafi látist úr blóðsýkingarlosti eftir að ígerð kom í sár á hendi hans. 

Móðir drengsins, Jayline Kema, var látin laus úr fangelsi í apríl eftir að hafa setið inni í eitt ár fyrir manndráp. Hún játaði að drengurinn hefði verið beittur ofbeldi, að hafa vanrækt að koma honum undir læknishendur og að hann hefði látist. Var það fyrsta staðfestingin á því að drengurinn hefði látið lífið.

Foreldrarnir hafa lengi verið grunaðir um að hafa banað drengnum, en saksóknarar segjast ekki hafa haft næg sönnunargögn til að ákæra þau fyrr en á síðasta ári. Drengurinn hvarf árið 1997.

Saksóknarar segja dóttur hjónanna, sem árið 1997 var fjögurra ára, hafa séð móður sína reyna að endurlífga bróður sinn. Síðar hafi hún séð bróður sinn í kassa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert