Jarðarbúar lifa á krít restina af árinu

Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum til að ganga minna …
Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum til að ganga minna á auðlindir jarðar með því að borða minna kjöt, brenna minna eldsneyti og draga úr matarsóun. mbl.is/Ómar

Mannkynið mun hafa nýtt allar leyfilegar birgðir sínar af auðlindum jarðar fyrir þetta ár strax í næstu viku.

Umhverfisverndarsamtökin World Wildlife Fund (WWF) og Global Footprint Network greindu frá þessu í dag og segja yfirdráttardaginn svonefnda vera degi fyrr á ferðinni í ár en í fyrra.

Þetta felur í sér að mannkynið muni ganga á auðlindir jarðar það sem eftir er af árinu.

„2. ágúst 2017 verðum við farin að nota meira af auðlindum jarðar, en sem nemur því sem jörðin getur náð að endurnýja á heilu ári,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. 1,7 jarðir þyrfti til framleiðslu auðlinda svo mæta mætti núverandi neyslu jarðarbúa.

Samtökin hafa tekið þessar tölur saman ár hvert frá því 1986 og á hverju ári hefur yfirdráttardagurinn færst framar.

Yfirdráttardagurinn var 21. október árið 1993, 2003 var hann 22. september og 2015 var hann 13. ágúst.  

60% af sótspori mannkyns er til komið vegna útblásturs gróðurhúsaloftegunda vegna brennslu kola, olíu og gastegunda.

Útlitið er þó ekki alsvart að sögn samtakanna, því þó að yfirdráttardagurinn komi fyrr með hverju árinu hefur dregið úr þessari hröðun.

Segja samtökin einstaklinga geta lagt sitt af mörkum til að stöðva þessa þróun og á endanum snúa henni við, með því að borða minna kjöt, brenna minna eldsneyti og draga úr matarsóun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert