Ógnvaldurinn í Os náðaður á elleftu stundu

Svanir geta verið viðskotaillir viðureignar. Lífi Hafnarstjórans hefur þó verið …
Svanir geta verið viðskotaillir viðureignar. Lífi Hafnarstjórans hefur þó verið þyrmt, en dýraverndarsamtök segja samfélagið ábyrgt fyrir frekju hans. Til dæmis með því að mata hann í sífellu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Greint var frá allsérstöku máli „Hafnarstjórans“ í bænum Os í Hordaland-fylki í Noregi í byrjun júlí en Hafnarstjórinn, eða Havnesjefen, er ljónstyggur og viðskotaillur svanur sem gekk endanlega fram af bæjarbúum þegar hann beit í litla stúlku, sem var í sjóbaði með föður sínum, og dró hana undir yfirborðið.

Þótti atlaga þessi dropinn sem fyllti mælinn en Hafnarstjórinn hafði þá verið lítt við alþýðuskap mánuðum saman og varið svæði sitt af miklu harðfylgi. Var sá fiðraði þá löngu orðinn landsþekktur íbúi Os eftir deilur sem spruttu í kjölfar þess að sveitarfélagið tók upp veskið þegar Hafnarstjórinn þurfti læknismeðferð vegna blýeitrunar.

Dæmdur til dauða

Eftir atlöguna að stúlkunni, sem marðist á öxl og varð fyrir miklu áfalli, kom bæjarstjórn Os saman og ákvað, í samráði við landbúnaðarnefnd svæðisins, að láta aflífa Hafnarstjórann. Urðu þá einhverjir til þess að benda á að slíkt gæti orðið flókið þar sem svanir eru friðaðir samkvæmt norskum lögum. Samtökin Svanahjálpin stigu einnig fram og mótmæltu og hafa félagar í þeim nú skipulagt sólarhringsvaktir við höfnina til að fylgjast með dýrinu.

Fuglafræðingurinn Arild Breistøl sagði að ekki mætti kenna Hafnarstjóranum um, samfélagið hefði gert hann að því sem hann er, til dæmis með því að mata hann í sífellu og kynda þar með undir frekju hans og valdhroka. Umhverfisráðuneytið lagði til að Hafnarstjórinn yrði færður til bæjarins Tysnes og aðrir bentu á að með aflífun hans yrði sett fordæmi og sveitarfélög um allan Noreg færu að drepa svani fyrir litlar sakir.

„Í gapastokk með kerlinguna...“

Eftir alla þessa umræðu, sem staðið hefur síðustu vikur, sneri bæjarráðið dómi sínum og náðaði Hafnarstjórann. Sú ákvörðun slökkti þó ekki alla elda því bæjarstjórinn, Marie Bruarøy, hefur fengið tugi hótana og hatursboða daglega, jafnvel morðhótanir, frá dýravinum um gervallan Noreg eins og norska ríkisútvarpið NRK greinir nú frá.

Bruarøy fær SMS-skilaboð, tölvupósti rignir yfir bæjarskrifstofurnar auk þess sem Facebook er beitt til að koma á framfæri skilaboðum á borð við „...hví ekki að setja kerlinguna í gapastokk öðrum til viðvörunar[?]“, „Þessi dýrahatari er Os til skammar!“, „[Ég] vorkenni þeim sem þurfa að alast upp með hana sem móður,“ og listinn er mun lengri.

Í raun hefur aðkoma Bruarøy að málinu þó ekki falist í öðru en að ræða við fjölmiðla um stöðuna en hún kom ekki að þeirri ákvörðun að aflífa Hafnarstjórann á sínum tíma og var ekki einu sinni starfandi bæjarstjóri þá. Þykir Bruarøy kveða svo rammt að hatursorðræðunni að hún hvetur til stofnunar sérstakrar netlögreglu til að hafa virkt eftirlit með slíkum málum og segir Jostein Strømnes, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknarlögreglunni KRIPOS, í tölvupósti til NRK að til standi að slíkt eftirlit verði komið í gagnið um allt land í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert