Skrifaði undir þriðja frumvarpið

Frá mótmælum við forsetahöllina í Varsjá í gær.
Frá mótmælum við forsetahöllina í Varsjá í gær. AFP

Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur skrifað undir umdeilt lagafrumvarp eftir að hafa heitið því að beita neitunarvaldinu gagnvart tveimur öðrum. Frumvörpin þrjú varða öll breytingar á dómskerfinu, sem hafa sætt mikilli gagnrýni.

Mótmælendur segja frumvörpin grafa undan sjálfstæði dómstólanna en lögin sem forsetinn undirritaði í dag veita dómsmálaráðherra landsins vald til að skipa yfirmenn allra dómstóla á neðri dómstigum.

Þess ber að geta að dómsmálaráðherra er einnig æðsti yfirmaður ákæruvaldsins.

Annað þeirra frumvarpa sem forsetinn neitaði að skrifa undir, eftir miklar áskoranir, hefði veitt dómsmálaráðherranum vald til að reka alla hæstaréttardómara landsins og skipa nýja í þeirra stað.

Duda sagði umrædd lög ganga of langt.

Ákvörðun forsetans um að beita neitunarvaldinu kom stjórnmálaskýrendum mjög á óvart enda hefur stjórnarflokkurinn PiS lagt mikla áherslu á að ná stjórn yfir sjálfstæðum stofnunum á borð við dómstólana.

Henni hefur hins vegar verið hampað sem sigri fyrir lýðræðið en yfirlýsing forsetans kom á hæla átta daga fjöldamótmæla um allt land.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Andrzej Duda kom mörgum á óvart með ákvörðun sinni um …
Andrzej Duda kom mörgum á óvart með ákvörðun sinni um að neita að skrifa undir lagafrumvörpin tvö. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert