10 þúsund yfirgáfu heimili sín

Skógareldar.
Skógareldar. AFP

Ekkert lát er á skógareldunum í Suður-Frakklandi sem hafa geisað frá því á mánudaginn. Í nótt þurftu um 10 þúsund manns að yfirgefa heimili sín. Eldarnir eru skæðastir á eyjunni Korsíku og nálægt borgunum Bormes-les-Mimoses og St. Tropez. Frakkar hafa óskað eftir aðstoð annarra ríkja í Evrópusambandinu við slökkvistarf. BBC greinir frá. 

Á þessu svæði tvöfaldast eða þrefaldast íbúafjöldinn yfir sumarið þar sem fjöldi fólks sækir í heitara loftslag. 

Um 4.000 slökkviliðsmenn berjast við eldana og hafa að minnsta kosti 12 þeirra slasast við störf og hafa 15 lögreglumenn fengið alvarlega reykeitrun. Við slökkvistarfið eru notaðar 19 flugvélar og þyrlur. Um fjögur þúsund hektarar lands hafa brunnið á Korsíku. 

Skógareldar loga einnig víða á Ítalíu og í Portúgal en mikill hiti og þurrkar eru á þessu svæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert