Fjármálastjóri Páfagarðs neitar sök

Kardínálanum fylgt inn í réttarsal.
Kardínálanum fylgt inn í réttarsal. AFP

George Pell, kardínáli og fjármálastjóri Páfagarðs, neitar sök í kynferðisbrotamáli sem hann er sóttur til saka fyrir í heimalandi sínu Ástralíu. Pell, sem er 76 ára gamall, er sakaður um fjölda kynferðisbrota gegn börnum þegar hann starfaði sem prestur í Ástralíu á árum áður. BBC greinir frá. 

Pell mætti í dag fyrir dómi í Melbourne og fékk fylgd lögreglu því fjölmargir mótmælendur og fjölmiðlar voru við dómshúsið. Málið verður tekið fyrir næst 8. september og dómur kveðinn upp 6. október.  

Mótmælendur mættu við dómshúsið í dag.
Mótmælendur mættu við dómshúsið í dag. AFP

Pell hefur haldið fram sakleysi sínu frá því málið kom fyrst upp. Hann var sendur í leyfi frá störfum sínum í Páfagarði í síðasta mánuði en hann hefur starfað náið með Frans páfa I. Páfagarður hefur lýst yfir fullum stuðningi við hann. 

Frétta­skýr­ing mbl.is: Níðings­verk í skjóli kirkj­unn­ar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert