Handtóku einhentan trúð með sveðju

Berry sést hér koma gangandi meðfram veginum með trúðsgrímuna og …
Berry sést hér koma gangandi meðfram veginum með trúðsgrímuna og sveðjuna. Ljósmynd/Lögreglan í Maine

Lögreglan í Maine-ríki í Bandaríkjunum handtók í gærkvöld einhentan trúð sem veifaði sveðju. BBC segir trúðinn, Corey Berry, hafa vakið athygli vegfarenda þar sem hann sást ganga eftir vegi í svartri hettupeysu, með trúðagrímu og með sveðjuna í hönd.

Berry var drukkinn en hafði notað límband til að festa sveðjuna við handlegg sinn, sem var aflimaður.

Áhyggjufullir íbúar í nágrenninu höfðu samband við neyðarlínuna og útvarpsstöðin í Hollis, heimabæ Berry, segir hann hafa hlaupið inn í skóginn þar sem lögregla náði að handtaka hann.

Lögreglumaðurinn Adam Schmidt sagði trúðinn hafa verið mjög ölvaðan en samstarfsfúsan og að hann hefði sagst hafa fengið hugmyndina út frá fyrri fréttum af óhugnanlegum trúðaferðum. Hann hefði í kjölfarið ákveðið að framkvæma prakkarastrik.

Hann var handtekinn og kærður fyrir glæpsamlega ógnandi athæfi, en látinn laus í dag gegn greiðslu tryggingar.

Sveðjan var límd við peysu hans.
Sveðjan var límd við peysu hans. Ljósmynd/Lögreglan í Maine
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert