Hóta að virkja „kjarnorkuúrræðið“

Frá mótmælum við aðsetur Hæstaréttar Póllands í Varsjá.
Frá mótmælum við aðsetur Hæstaréttar Póllands í Varsjá. AFP

Evrópusambandið mun tafarlaust grípa til aðgerða og svipta Pólland atkvæðarétti sínum ef þarlend stjórnvöld ýta í gegn umdeildum breytingum á æðsta dómstól landsins. Frá þessu greindi Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, í dag.

Timmermans sagðist fagna ákvörðun forsetans Andrzej Duda að neita að undirrita tvö lagafrumvörp hægristjórnarinnar, sem m.a. varða breytingar á pólska hæstaréttinum, en vakti athygli á því að hann hefði þegar staðfest tvö önnur frumvörp er varða dómskerfið.

Sagði Timmermans að ef stjórnvöld í Póllandi tækju skref í þá átt að reka eða þvinga hæstaréttardómara landsins á eftirlaun, myndi sambandið umsvifalaust virkja 7. grein Lissabon-sáttmálans.

7. greinin hefur verið kölluð „kjarnorkuúrræðið“ en hún hefur aldrei verið virkjuð. Hún sviptir aðildarríki atkvæðarétti sínum á ráðherrafundum á vegum bandalagsins.

Umrædd lagafrumvörp hafa vakið hörð viðbrögð heima fyrir og víðar, en þau eru sögð bein ógn við sjálfstæði dómstólanna. Áhyggjur eru enn uppi, þrátt fyrir að forsetinn hafi beitt neitunarvaldi sínu varðandi tvö frumvörp af fjórum, þar sem stjórnvöld hyggjast enn freista þess að koma öllum í gegn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert