Mínútuþögn við opnun Sørlandssenteret í dag

Árásin átti sér stað í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand.
Árásin átti sér stað í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand. Google maps

Sautján ára stúlka, starfsmaður Coop í Sørlandssenteret í Kristiansand í Noregi, lést á sjúkrahúsi eftir að 15 ára stúlka vopnuð stórum kjöthníf gekk berserksgang í verslunarmiðstöðinni síðdegis í gær.

Viðskiptavinur verslunarinnar hlaut einnig stungusár en ekki hefur verið upplýst um ástand hans enn sem komið er. Verslunarmiðstöðin Sørlandssenteret var opnuð á hefðbundnum tíma í morgun og hófst starfsdagurinn með einnar mínútu þögn starfsfólksins en lögregla hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 11.

„Coop býður upp á eigin áætlun fyrir sitt starfsfólk en við [verslunarmiðstöðin] höfum sett upp kyrrðarherbergi sem þeir geta leitað í sem þurfa yfir daginn,“ segir Ola Stavnsborg, öryggisstjóri Olav Thon-gruppen, eiganda miðstöðvarinnar, í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann segir daginn í dag þungan öllu starfsfólki á staðnum.

Aðstoðarbæjarstjóri Kristiansand, Jørgen Kristiansen, segir áfallateymi á vegum bæjarins starfrækt í dag, líkt og vaninn sé eftir atburði á borð við þessa en ekki er lengra síðan en í desember í fyrra að 16 ára piltur stakk tæplega fimmtuga konu og 14 ára dreng til bana við Wilds Minne-grunnskólann í bænum.

Árásarmanneskjan í gær var flutt á sjúkrahús eftir handtökuna en hún hefur áður komið við sögu lögreglunnar í Kristiansand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert