Fannst eftir að hafa varðveitt eigin lykt

Frá Citrus-sýslu, þar sem konan týndist. Hennar var saknað í …
Frá Citrus-sýslu, þar sem konan týndist. Hennar var saknað í tvo klukkutíma. Wikipedia/Ebyabe

Lögreglu í Flórída tókst í vikunni að hafa uppi á konu sem þjáist af vitglöpum á aðeins nokkrum mínútum en konan var svo hyggin að varðveita eigin lykt fyrir nokkrum árum.

Til að geyma lyktina notaði hún þar til gerðan búnað en aðferðin felst í því að nudda púða eftir handakrikunum og geyma hann í loftþéttri og sótthreinsaðri glerkrukku.

Markmiðið er að hafa eitthvað tilbúið fyrir lögreglu til að láta leitarhunda þefa af.

Framleiðendur segja þessa aðferð virka betur en að láta hundana þefa af fatnaði, þar sem þau geti verið „smituð“ lykt af öðrum eða umhverfinu.

Í sumum ríkjum, t.d. Kína og Þýskalandi, hafa lögregluyfirvöld gert tilraunir til að varðveita lyktarsýni glæpamanna og af vettvangi glæpa.

Leit með hundum er sögð hafa sýnt fram á misgóðan árangur en í þessu tilviki fékk hundurinn ís að launum, að því er BBC segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert