Systur nauðgara nauðgað í hefndarskyni

Þorpsbúi bendir á húsið þar sem seinni nauðgunin átti sér …
Þorpsbúi bendir á húsið þar sem seinni nauðgunin átti sér stað. AFP

Lögregla í Pakistan hefur handtekið 20 þorpsráðsmenn fyrir að fyrirskipa að nauðga unglingsstúlku í refsingarskyni fyrir nauðgun sem framin var af bróður hennar. Glæpurinn átti sér stað fyrr í þessum mánuði í Muzaffarabad, úthverfi borgarinnar Multan.

Þolandi árásarinnar var 17 ára gömul stúlka, sem er systir manns sem grunaður er um að hafa nauðgað 13 ára stúlku fyrr í mánuðinum. Sá sem nauðgaði 17 ára stúlkunni er talinn vera bróðir 13 ára stúlkunnar.

Lögreglustjórinn Ahsan Younus sagði í samtali við AP að leit að mönnunum tveimur stæði yfir.

Á strjálbýlum svæðum í Pakistan tíðkast að leita til þorpsráða um lausn deilumála en ráðin eru oftar en ekki skipuð eldri karlmönnum. Þau eru ólögleg og hafa sætt mikilli gagnrýni, ekki síst vegna viðhorfa þeirrra og afstöðu til kvenna.

AFP hafði eftir Allah Baksh, lögreglumanni á svæðinu, að maður hefði leitað til viðkomandi þorpsráðs, eða jirga eins og þau eru kölluð, og kvartað yfir því að systur hans hefði verið nauðgað af frænda þeirra.

Lausn ráðsins fólst í því að fela manninum að nauðga systur frændans.

Málið er alls ekki einsdæmi en það komst í heimsfréttirnar þegar þorpsráð fyrirskipaði hópnauðgun Mukhtar Mai, sem kærði árásarmennina og opnaði síðar stúlknaskóla.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert