Umræða um ferðamannaskatt hitnar í Noregi

Frá Lófóten í Noregi.
Frá Lófóten í Noregi. AFP

Það er ekki á færi allra smábæja með 24.000 íbúa að ná einni milljón gistinátta á ári en slíkan heimsóknafjölda búa íbúar Lófóten í Norður-Noregi við og er umræða um ferðamannaskatt í Noregi nú orðin verulega hávær, einkum til að koma til móts við þann gríðarlega kostnað sem minni sveitarfélög eru að kikna undan vegna sífelldra þrifa og krafna um stórbætta salernisaðstöðu.

Það vekur athygli í fréttum dagsins sem dagblaðið VG greinir frá að nú vendir Miðflokkurinn sínu kvæði í kross, sem fram að þessu hefur barist gegn ferðamannaskatti með kjafti og klóm, og lýsir sig reiðubúinn til að kanna slíka skattheimtu á vegum þeirra sveitarfélaga sem höllustum fæti standa.

Geirangursfjörður að drukkna í skemmtiferðaskipum

„Það er ljóst að telji ferðaþjónustuaðilar á þessum stöðum að ekki verði hjá þessu komist munum við ekki standa í vegi fyrir því [skattheimtu],“ segir Geir Pollestad, þingmaður Miðflokksins, „en við viljum ekki að það geri það að verkum að ríkið sé stikkfrí þegar kemur að því að leggja fé til málaflokksins.“

Pollestad nefnir sérstaklega Lófóten, Preikestolen í Rogaland og klettasylluna Trolltunga í Hordaland en einnig hefur Geirangursfjörður verið mikið í umræðunni en hann komst á heimsminjaskrá UNESCO fyrir tólf árum. Þar er umferð skemmtiferðaskipa nú svo mikil yfir sumarmánuðina að litlu byggðarlögin við fjörðinn fara á hliðina þegar gestirnir stíga í land til að skoða sig um.

Stofnunin Heimsarfurinn Geirangur er fulltrúi svæðisins gagnvart UNESCO og óttast talsmenn hennar nú að náttúra fari að láta á sjá vegna troðningsins en um svæðið liggja þröngir stígar sem mörg þúsund manns ryðjast um dag hvern og enginn hefur enn treyst sér til að reikna út hve mörg þúsund séu um hvert salerni þar á svæðinu þegar verst lætur.

Mona Fagerås, fylkisráðsmaður Sósíalíska vinstriflokksins fyrir Nordland, segir það ekki forsvaranlegt að minnstu sveitarfélögin standi frammi fyrir því að velja hvort þau eigi að setja síðustu krónurnar í ferðamenn eða umönnun aldraðra íbúa. Þar gildi einfaldlega að hugsa fyrst um sitt eigið heimafólk.

Viltu verða klósettmilljónamæringur?

Þegar VG kannaði afstöðu stærstu stjórnmálaflokka Nordland-fylkis, en þar er Lófóten, til málsins varð niðurstaðan sú að Sósílíski vinstriflokkurinn, Rautt, Kristilegi þjóðarflokkurinn og Vinstri eru hallir undir ferðamannaskatt en Hægri og Framfaraflokkurinn leggjast gegn skattinum.

Blaðið ræðir einnig við Íslendinginn Ragnar Pálsson hjá Classic Norway en á þess vegum eru fjögur hótel í Lófóten. Ragnar segist geta boðið öllum sínum gestum upp á salerni en bendir á, varðandi almennan salernisvanda bæjarins, að þarna liggi hugsanlegir viðskiptamöguleikar og ríkið gæti til dæmis styrkt brautryðjendur, fyrirtæki eða einstaklinga, til að setja upp klósett í Lófóten sem svo mætti hafa kortalesara á og láta ferðamennina þar með borga.

Blaðamaður VG spyr þá hvort Ragnar gæti hugsað sér að verða „klósettmilljónamæringur“ og kveðst hann í gamni reyndar hafa íhugað það og kalla þá fyrirtækið „Drit og dra“ [blótsyrði í norsku, „Skíttu og farðu“].

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert