Nauðgað tvisvar á einni nóttu

Witton-lestarstöðin í Birmingham.
Witton-lestarstöðin í Birmingham. Wikipedia/Elliott Brown

Breska lögreglan leitar nú tveggja manna eftir að 15 ára stúlku var nauðgað tvisvar á einni nóttu í Birmingham í vikunni. Eftir að hafa verið nauðgað á lestarstöð leitaði hún aðstoðar manns sem átti leið hjá en sá beitti hana einnig kynferðislegu ofbeldi.

Fyrri árásin átti sér stað milli kl. 19 og 2 aðfaranótt miðvikudags. Stúlkan var á gangi með vinkonu sinni við Witton-lestarstöðina þegar maður kom að henni, leiddi hana í burtu og nauðgaði.

Eftir árásina gekk stúlkan í burtu frá stöðinni og veifaði bifreið að stoppa. Þegar hún settist inn í bifreiðina réðist ökumaðurinn á hana og beitti hana kynferðisofbeldi.

Lögregluyfirvöld í Birmingham hafa biðlað til mögulegra vitna að gefa sig fram og hafið umfangsmikla rannsókn á hinum „hryllilegu“ árásum, sem verða rannsakaðar sem tvær aðskildar nauðganir.

Báðum árásarmönnunum er lýst sem asískum mönnum á þrítugsaldri.

CNN sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert