Sænskir gestir handteknir á landamærum

Nýnasistar streyma nú til Østfold-fylkis.
Nýnasistar streyma nú til Østfold-fylkis. Kort/Google Maps

Norska lögreglan hefur nú mikinn viðbúnað við landamærin gagnvart Svíþjóð, einkum þó suðurhlutann þar sem landamærin liggja að fylkinu Østfold, suður af Ósló, og hefur norska Dagbladet fylgst með handtökum fjögurra sænskra nýnasista en ríkisútvarpið NRK veit til þess að alls hafi 14 verið handteknir.

Hinir handteknu eru sænskir hægriöfgamenn, nýnasistar, en slíkir streyma nú hvaðnæva til Østfold til þess að taka þátt í göngu Norrænu andspyrnuhreyfingarinnar, Den nordiske motstandsbevegelsen, eða DNM, sem fram fer í dag en hreyfing þessi er samtök nýnasista í Skandinavíu.

Minnast falls Ólafs helga

Handtökurnar eru framkvæmdar í nafni 106. greinar norsku útlendingalaganna sem kveður á um undir hvaða kringumstæðum sé heimilt að handtaka útlendinga sem koma til landsins en b-liður hennar fjallar um útlendinga sem ástæða sé til að ætla að muni ekki hlýða lögmætri brottvísun úr landinu.

Skrúðganga og hátíðarhöld DNM eru árviss viðburður 29. júlí en sá dagur gengur undir heitinu Olsok, sem leitt er af norræna orðinu Ólafsvaka, og er dagurinn sem Ólafur Haraldsson Noregskonungur féll í Stiklastaðaorrustu árið 1030 og var eftir dauða sinn gerður að kaþólskum dýrlingi, Ólafi helga.

Lögreglu í Østfold er nokkur vandi á höndum því skipuleggjendur DNM halda því kirfilega leyndu hvar gangan fer fram, aðeins er vitað að hún verður í Østfold sem er miðsvæðis þegar litið er til Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs sameiginlega. Upphaflega hafði fengist leyfi til að halda gönguna í Fredrikstad en lögregla afturkallaði það vegna hættu á átökum liðsmanna DNM og þeirra sem kæmu til að mótmæla göngunni.

„Enga vinstriöfgamenn“

„Við athugum bílnúmer í samvinnu við sænsku lögregluna og könnum svo feril þeirra sem eru á ferð og framhaldið fer eftir því sem kemur út úr því,“ segir Ingar Signebøen, vettvangsstjóri í austurumdæmi norsku lögreglunnar, í samtali við Dagbladet.

Hægriöfgamaðurinn Morten Lorentzen tilheyrir samtökum sem kalla sig Aðgerðasinna fyrir tjáningarfrelsi (n. Aktivistgruppe Ytringsfrihet) og höfðu þau einnig sótt um leyfi fyrir göngu í Fredrikstad en fengið þvert nei. „Við ætlum að ganga samt,“ segir Lorentzen, „við erum búin að bjóða fólki frá allri Evrópu.“ Hann bætir því við að ganga þeirra fari einnig fram á leynilegum stað, hann vilji hvorki lögreglu né „ofbeldisfulla vinstriöfgamenn“.

Umfjöllun Dagbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert