Trump með eigin fréttaþátt

Lara Trump er stjórnandi þáttarins, en hún er tengdadóttir forsetans.
Lara Trump er stjórnandi þáttarins, en hún er tengdadóttir forsetans.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er orðinn þreyttur á hinum svokölluðu „fölsku fréttum“ sem hann sakar fjölmiðla um að skrifa um sig, og hefur sett af stað eigin fréttaþátt með „alvöru fréttum“ þar sem fjallað er um afrek hans sem forseta. Þáttastjórnandinn er tengdadóttir hans, Lara Trump, en þátturinn er sýndur á Facebook.

Mikið hefur verið fjallað um sviptingar í Hvíta húsinu síðustu daga eftir að Anthony Scaramucci var bæði ráðinn og rekinn úr starfi samskiptastjóra á tíu dögum. Hinn nýi fréttaþáttur á hins vegar að draga athyglina að því sem Trump hefur afrekað í vikunni.

Lara er gift Eric Trump, syni forsetans, en í fyrsta þættinum segist hún efast um að fólk hafi heyrt af „öllum afrekum forsetans þessa vikuna þar sem það hafi verið skrifað svo mikið af fölskum fréttum“.

Segist hún vera stolt af tengdaföður sínum, sem hafi gefið laun sín fyrir þennan ársfjórðung til menntamálaráðuneytisins. „Þetta er forseti sem tekur Bandaríkin fram yfir sjálfan sig“.

Benti hún einnig á að atvinnuleysi hefði ekki verið minna frá árinu 2001. Það væri „mögnuð staðreynd“ og að mikill uppgangur væri í efnahagskerfinu. Hún tók þó ekki fram að atvinnuleysi hefði stöðugt farið minnkandi síðustu sex ár.

Auk þess hélt hún því fram að Trump hefði skapað 800 þúsund störf. Loks lauk þættinum á orðunum: „Takk fyrir að vera með okkur allir saman. Ég er Lara Trump og þetta eru alvörufréttir“.

Frétt Telegraph um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert