Trump áminnti forseta Mexíkó

Trump lét forseta og forsætisráðherra heyra það.
Trump lét forseta og forsætisráðherra heyra það. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, brýndi fyrir forseta Mexíkó, Enrique Pena Nieto, að hætta að segja það opinberlega að Mexíkóbúar myndu ekki greiða fyrir vegginn sem Trump hyggst reisa á landamærum landanna tveggja, í fyrsta símtali þeirra sem átti sér stað þann 27. janúar síðastliðinn. Þetta kemur fram útprentun símtalsins sem Washington Post hefur birt.

Trump áminnti Nieto einnig fyrir að fordæma fyrirhugaðan vegg í fjölmiðlum. „Þú mátt ekki segja þetta við fjölmiðla,“ sagði Trump ítrekað við Nieto. „Ef þú ætlar að segja að Mexíkó muni ekki borga vegginn þá vil ég ekki hitta ykkur aftur. Ég á mjög erfitt með að lifa með því,“ sagði Trump jafnframt.

Einnig var birt útprentun á samtali Trump við forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull. Trump gerði forsætisráðherranum grein fyrir því að honum litist ekki á stefnu hans í málefnum flóttafólks. „Ég er merkilegasta manneskjan í veröldinni og ég vil ekki hleypa þessu fólki inn í landið,“ sagði Trump meðal annars.

„Ég er búinn að fá nóg af þessu. Ég er búinn að vera að hringja þessi símtöl í allan dag og þetta er það allra versta. Samtalið við Pútín var mun ánægjulegra. Þetta er fáránlegt,“ sagði hann svo í lok símtalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert