Uppfylltu hinstu ósk deyjandi konu

Emily Pomeranz var ánægð með að fá eftirlætis drykkinn sinn.
Emily Pomeranz var ánægð með að fá eftirlætis drykkinn sinn. Skjáskot/Facebook

Hinsta ósk Emily Pomeranz var að fá mjólkurhristing. Hún hafði ákveðinn mjólkurhristing í huga og var hann sendur þvert yfir Bandaríkin til að uppfylla óskina. Pomeranz lést fjórum dögum síðar. 

Pomeranz var með krabbamein í brisi og lá fyrir dauðanum á sjúkrahúsi í Washington-borg. Hún setti fram þá hinstu ósk að fá mjólkurhristing frá veitingastað í heimaborg sinni Cleveland.

Pomeranz sagði vini sínum frá þessari ósk sinni og sá setti sig í samband við veitingastaðinn Tommy's í Cleveland í Ohio-ríki og sagði starfsfólkinu þar frá þessari óvenjulegu bón. Það skipti engum togum að hristingurinn var kominn á sjúkrastofu Pomeranz skömmu síðar. 

Vinurinn segir í samtali við BBC að hann hafi heimsótt Pomeranz á líknardeildina og spurt hana hvort hana vanhagaði um eitthvað. „Hún sagðist brosandi gjarnan vilja fá einn mokka-mjólkurhristing frá Tommy's,“ segir Sam Klein. 

Hann ákvað að láta á það reyna og setti sig í samband við veitingastaðinn. Stuttu síðar fékk hann símtal frá eiganda staðarins sem sagðist ætla að finna leið til að senda hristinginn. Það tókst og mjólkurhristingurinn var sendur um 600 kílómetra leið.

Klein segir að Pomeranz, sem var fimmtug er hún lést, hafi verið mjög ánægð er hún bragðaði á þessum eftirlætis drykk sínum.

„Ég veit að Emily yrði ánægð með að geta látið fólki líða vel þó að hún sé ekki enn meðal okkar,“ segir Klein.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert