Fangelsaðir fyrir að fara í verkfall

Lögreglumenn í Egyptalandi voru óánægðir með kjör sín.
Lögreglumenn í Egyptalandi voru óánægðir með kjör sín. AFP

Dómstóll í Egyptalandi hefur dæmt 50 lögreglumenn þar í landi í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa farið í verkfall fyrr á þessu ári. Lögreglumennirnir voru jafnframt sektaðir um 6.000 pund. Þetta kemur fram í ríkisdagblaðinu Al-Aharm. AFP-fréttastofan greinir frá.

Lögreglumennirnir gripu til þess ráðs að fara í verkfall til að mótmæla fækkun frídaga, en í blaðinu kemur fram að þeir hafi hótað yfirmönnum sínum ofbeldi.

Egypskir lögreglumenn hafa nokkrum sinnum farið í verkfall síðan Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta landsins, var steypt af stóli árið 2011. Yfirvöld hafa hins vegar litla þolinmæði fyrir slíkum mótmælum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert