Gerir lítið úr samtalinu við Trump

Turnbull gerir lítið úr samtalinu og segir það hafa verið …
Turnbull gerir lítið úr samtalinu og segir það hafa verið hreinskilið og kurteist. AFP

Malcom Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, gerir lítið úr frekar niðrandi samtali hans við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um umdeilda skiptingu á móttöku flóttamanna, sem var gert opinbert með útskrift af símtali forsætisráðherrans og forsetans í gær. Það var Washington Post sem birti útskrift samtalsins, ásamt samtali Trump við forseta Mexíkó. Samtölin áttu sér stað í janúar á þessu ári.

Turnbull og Barack Obama, forveri Trump, höfðu gert með sér samning móttöku flóttamanna. Bandaríkin höfðu til að mynda samþykkt að taka við flóttamönnum úr flóttamannabúðum á Kyrrahafseyjunum en Trump sagði samninginn fáránlegan. Þetta kom fram afriti samtalsins.

Þar kom einnig fram að ósamræmi var í því sem Turnbull sagði við Trump annars vegar og almenning hins vegar.

Í raun hafi ekki verið um skiptisamning að ræða. „Við tökum við hverjum þeim sem þið viljið að við tökum,“ sagði Turnbull í samtalinu. „Eina fólkið sem við tökum ekki við er fólkið sem kemur á bátum. Við tökum frekar við óaðlaðandi náunga sem réttir hjálparhönd, heldur en Nóbelsverðlauna hafa sem kemur hingað á bát.“

AFP

Turnbull sagði eftir að samtalið var birt að það hefði verið hreinskilið og kurteist og varði það sem hann sagði við Trump. Í útskrift samtalsins virtist þó ekki mikill kærleikur á milli þeirra. Enda lauk Trump samtalinu á því að segja að þetta væri versta samtal sem hann hefði átt þann daginn. Hann hefði átt ánægjulegra samtal við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Turnbull sagði jafnframt að í málefnum flóttamanna væri gagnkvæmur skilningur á milli landanna og þau aðstoðuðu hvort annað. „Við hjálpum Bandaríkjamönnum og þeir hjálpa okkur.“

Turnbull gerði einnig lítið úr þeim ummælum sínum að Bandaríkjamenn gætu tekið á móti eins fáum flóttamönnum og þeir vildu. Jafnvel þó að í samningum væri kveðið á um að löndin ætluðu hjálpast að við að flytja hundruð flóttamenn af Manus eyju í Nýju Gíneu, áður en flóttamannabúðunum yrði lokað í október. Til stóð að ríkin myndi skipta flóttamönnunum á milli sín.

Mannréttindasamtök eins og Amnesty International hafa gagnrýnt það sem fram kemur í samtalinu og segja ástralska forsætisráðherrann vera kasta teningum upp á líf fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert