Álag á Trump í útlegðinni

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist hafa nóg að gera við að stýra landinu frá golfklúbbi sínum í New Jersey. Endurbætur standa yfir í Hvíta húsinu þannig að Trump varð að sinna starfinu annars staðar. „Þetta er ekki frí - fundir og símtöl!,“ segir Trump.

Trump hefur dvalið í New Jersey í þrjá daga og í Twitter-færslu í dag segist hann einbeita sér að því að stjórna landinu. Löngu hafi verið ákveðið að gera endurbætur á Hvíta húsinu og er Trump-fjölskyldan í útlegð þaðan í tvær vikur.

„Fer til New York í næstu viku til þess að sækja fleiri fundi,“ segir meðal annars í einni af mörgum færslum hans á Twitter í dag.

Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að eyða miklum tíma á golfvellinum en það segir Trump að sé ekki rétt, hann sé á fullu að vinna þó svo að hann sé ekki staddur í Hvíta húsinu. Í forsetatíð Baracks Obama gagnrýndi Trump forsetann ítrekað fyrir að eyða of miklum tíma á golfvellinum. Honum væri nær að vinna aðeins meira. 

Trump ræðst harkalega á öldungadeildarþingmanninn Richard Blumenthal á Twitter, það kom fram á CNN fyrr í dag. Þar sagðist demókratinn styðja rannsókn á samskiptum Rússa og framboðs Trumps í fyrra af heilum hug. 

„Aldrei í sögu Bandaríkjanna hefur nokkur logið eða svikið kjósendur eins og öldungadeildarþingmaðurinn Richard Blumenthal,“ segir Trump á Twitter. Bendir hann máli sínu til stuðnings á lygar þingmannsins um að hafa þjónað landi sínu í Víetnam. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert