270 lík grafin úr aurskriðunni

Björgunarsveitir hafa nú náð að grafa lík 270 manna upp úr aurskriðunni sem féll í hlíð skammt frá Freetown, höfuðborg Síerra Leóne, í gærmorgun. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir borgarstjóra Freetown, Sam Gibson.

Enn er björgunarstarf í fullum gangi í  bænum Regent, sem skriðan féll á.

Skriðan féll snemma morgun í kjöl­far mik­illa rign­inga og skildi fjölda húsa eftir á kafi í drullu. Marg­ir voru enn í vær­um svefni er hún féll og voru því inn­lyksa á heim­il­um sín­um.

Victor Foh, varaforseti Síerra Leóne, hefur varað við því að endanlegur fjöldi látinna kunni að verða mun hærri og talið er að um 3.000 manns hafi misst heimili sín.

Ishmeal Charles, starfsmaður Healey og Caritas Freetown góðgerðarsamtakanna, sagði orð ekki geta lýst hörmungunum.

„Vitanlega sér maður fjölda fólks grátandi með þeim sem hafa misst fjölskyldumeðlimi,“ sagði hann. „Það er erfitt að lýsta því hvernig raunveruleikinn er. Því hann er mun meira ógnvekjandi og hörmulegri en orð fá lýst.“

„Hún var grafin lifandi“

„Eiginkona mín er dáin. Börnin mín eru dáin. Ég talaði við börnin mín áður en ég fór í vinnuna og eitt þeirra valdi meira að segja sokkana sem ég átti að fara í,“ sagði maður að nafni Malikie við BBC.

Kona nokkur Adama að nafni, sagðist enn vera að leita að barni sínu. „Við vorum inni. Svo heyrðum við skriðuna nálgast. Við reyndum að flýja. Ég reyndi að grípa barnið en skriðan kom of fljótt. Hún var grafin lifandi,“ sagði Adama.

„Ég hef ekki séð Alhaji, eiginmann minn. Barnið mitt var bara sjö vikna gamalt.“

Mohamed Sinneh, sem starfar á líkhúsinu í Connaught-sjúkrahúsinu í Freetown, sagði AFP-fréttastofunni að hann hefði talið meira en 300 lík í gær og að fleiri hefðu verið flutt á einkarekin líkhús.

Þá sagði Patrick Massaquoi, talsmaður Rauða krossins, að staðfest væri að 312 væru látnir og útlit væri fyrir að tala látinna muni hækka enn frekar.

Á mynd­um sem deilt hef­ur verið á Twitter og öðrum sam­fé­lags­miðlum má sjá fólk vaða í grugg­ugu vatn­inu um göt­ur borg­ar­inn­ar sem víða nær upp í mitti. Viðbragðsaðilar eru nú á vett­vangi og reyna að bjarga því fólki sem er inn­lyksa á heim­il­um sín­um.

Flóð eru ekki óal­geng í Síerra Leóne en reglu­lega kem­ur það fyr­ir að lé­leg hús skol­ast í burtu í miklu regni. Árið 2015 lét­ust tíu manns og þúsund­ir misstu heim­ili sín í kjöl­far flóðs í borg­inni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert