Augnablik öfga og haturs fryst

Mynd Ryans M. Kelly af því þegar bílnum var ekið …
Mynd Ryans M. Kelly af því þegar bílnum var ekið á mannfjöldann í Charlottesville. Myndin er ein áhrifamesta fréttamynd síðari ára að mati margra. Ljósmynd/Ryan M. Kelly

Tveir karlmenn eru í lausu lofti. Fótunum hefur verið kippt undan þeim. Annar er við það að falla til jarðar. Hendur hans eru beinar en annar fóturinn er í óhugnanlegri og ónáttúrulegri stellingu. Annar er fljúgandi ofar þaki bílsins. Skyrtan hefur brest upp og ber húðin, flúruð myndum, blasir við. Hægra megin er kona við það að detta fyrir aftan annan bíl. Skór eru á víð og dreif á vettvangi. Umhverfis stendur hópur fólks með skilti sem á stendur meðal annars: „Ást“, „Samstaða“ og „Líf svartra skipta máli“.

Augnablikið sem hér að ofan er lýst var fangað á áhrifamikilli fréttamynd um helgina af hroðalegum atburði er varð þegar til átaka kom vegna kröfugöngu hvítra kynþáttahatara í borginni Charlottesville í Virginíu. Hópur fólks kom til að mótmæla boðskap kynþáttahataranna. Í fyrstu kom til orðahnippinga. Svo var farið að stugga við fólki. Að lokum brutust út átök. Þegar allt var á suðupunkti bakkaði einn úr hópi kynþáttahataranna, James Alex Fields, bíl sínum inn í mannfjöldann og á mótmælendurna með þeim afleiðingum að margir slösuðust og ein kona, Heather Heyer að nafni, lést.

Mótmælendur halda mynd Heather Heyer á lofti. Heather lést er …
Mótmælendur halda mynd Heather Heyer á lofti. Heather lést er maður úr hópi kynþáttahatara ók á mannfjölda í Charlottesville á laugardag. AFP

Myndskeið hafa birst af því þegar Fields ekur á mikilli ferð á fólkið. En ljósmyndin, sem Ryan M. Kelly tók fyrir dagblaðið Daily Progress, er jafnvel enn meira lýsandi því hún fangar eitt hrollvekjandi augnablik voðaverksins. Þannig segir myndin meira en þúsund orð um hvað gekk á; þar sem hvítir öfgamenn mættu andstöðu og upp úr sauð með hrikalegum afleiðingum.

James Alex Fields ók bíl á mannfjöldann í Charlottesville. Ein …
James Alex Fields ók bíl á mannfjöldann í Charlottesville. Ein kona lést og nítján særðust. Fields hefur verið ákærður fyrir manndráp. AFP

Furðulega Ameríka

„Myndin er ljóslifandi dæmi um hversu furðuleg Ameríka er í augnablikinu,“ skrifar Alyssa Rosenberg, í skoðanapistli á vef The Washington Post. Hún segir að aldrei hafi tekist að útrýma kynþáttahatri í landinu en tímarnir séu þó breyttir að því leyti að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé ekki fær um að fordæma kynþáttahatara „jafnvel í afdráttarlausum aðstæðum“ sem þessum. Gagnrýni Rosenberg og fleiri var sett fram á sunnudag, en það var ekki fyrr en í gær að Trump steig loks fram og las tilkynningu þar sem hann fordæmdi kynþáttahatur. 

Atburðirnir á laugardag eru kannski „augljósasta dæmið um þróun öfgaafla í Bandaríkjunum þar sem gamlir og nýir hópar kynþáttahatara sem tengst hafa á samfélagsmiðlum og fengið hvatningu með kjöri Donalds Trump, hafa runnið saman,“ skrifuðu Richard Fausset og Alan Feue, blaðamenn New York Times, um málið.  

KKK, Ku Klux Klan, hópur kynþáttahatara, lifir enn góðu lífi …
KKK, Ku Klux Klan, hópur kynþáttahatara, lifir enn góðu lífi þrátt fyrir að hafa verið meira áberandi á síðustu öld. Upphafsstafirnir voru ritaðir með krít á gangstétt í Charlottesville um helgina. AFP

Öfgahóparnir sem stóðu fyrir kröfugöngunni á laugardag voru m.a. að mótmæla því að fjarlægja átti styttu af hershöfðingja Suðurríkjahers úr garði í Charlottesville. Ræturnar liggja þó mun dýpra. Ýmis teikn eru á lofti um uppgang í röðum hvítra öfgamanna. Á síðustu vikum hafa þessir hópar verið nokkuð áberandi, m.a. í fyrri mótmælum í Charlottesville og víðar í Bandaríkjunum. Á föstudagskvöld gengu nokkur hundruð fylgjendur þeirra saman í nágrenni Háskólans í Virginíu í Charlottesville með logandi kyndla á lofti. „Þið munuð ekki koma í okkar stað. Gyðingar munu ekki koma í okkar stað,“ hrópaði fólkið meðal annars. Í júlí beitti lögreglan táragasi til að leysa upp mótmæli kynþáttahatara sem kenna sig við Ku Klux Klan í borginni. 

Það var því viðbúið að átök myndu brjótast út þegar þúsundir höfðu boðað komu sína í kröfugönguna á laugardag. 

Ljósmyndarinn Ryan Kelly segir að fréttastofa The Daily Progress, hafi undirbúið sig lengi fyrir þennan dag, 12. ágúst, þegar hópar kynþáttahatara höfðu boðað til kröfugöngu í Charlottesville. Kelly segist hafa vaknað snemma, fengið sér tvo kaffibolla og mætt á vettvang. Hann hóf þegar í stað að taka myndir, m.a. af hópi mótmælenda. Hann gekk á undan þeim og færði sig svo upp á gangstétt og hélt áfram að mynda. Í sama mund og hann gerði það kom bíll á fleygiferð fram hjá honum og ók inn í mótmælendahópinn. Hann bakkaði svo og snéri við og ók af vettvangi. 

Ósjálfráð viðbrögð að mynda

Kelly segir það hafa verið ósjálfrátt viðbragð að mynda allt saman. Hann sagðist í raun ekki strax hafa áttað sig á hvað það var sem hann var að mynda. „Allt þar til maðurinn ók bíl sínum niður götuna þá var þetta eins og hver annar dagur. Þess vegna fannst mér ég ekki vera í neinni hættu. Í raun var það einskær heppni að ég var kominn upp á gangstétt í stað þess að vera á miðjum veginum,“ segir Kelly um atburðinn í grein á vef Columbia Journalism Review. „Ef bíllinn hefði komið 20 sekúndum fyrr hefði ég verið á veginum og ég hefði ekki séð hann koma.“

Laugardagurinn átti að verða síðasti dagur Kelly í starfi sem ljósmyndari á Daily Progress. Hann mun fljótlega taka við starfi samfélagsmiðlastjóra hjá bjórframleiðandanum Ardent Craft Ales. 

Hann segir síðasta vinnudaginn því hafa verið einstaklega viðburðaríkan. „Ég var á staðnum á þessum tíma þegar allt var að gerast og ég vann vinnuna mína. Ég er stoltur af dagblaðinu mínu en ég hef ekki hugsað mikið um áhrif ljósmyndarinnar. Ég veit að hún er komin um allt. [...] Ég er glaður að fólk sér hana. Þetta var hræðilegt og það að fólk verði meðvitaðra um hvað er að gerast er jákvætt en ég get þó ekki sagt að ég sé glaður að hafa verið þarna.“

Á vettvangi voðaverksins í Charlottesville í kjölfar þess að maður …
Á vettvangi voðaverksins í Charlottesville í kjölfar þess að maður ók bíl sínum í gegnum hóp mótmælenda. Ein kona lést. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert