Ekki lögbrot að mynda klám í kirkju

Sankti Jósefskirkjan í Tilburg. Kirkjuyfirvöld eru ósátt við að hún …
Sankti Jósefskirkjan í Tilburg. Kirkjuyfirvöld eru ósátt við að hún hafi verið nýtt til klámmyndagerðar, en saksóknari segir athæfið ekki ólöglegt. google maps

Hollenskir saksóknarar hafa hafnað kæru frá kirkjuyfirvöldum í borginni Tilburg vegna myndbands sem sýnir tvo klámmyndaleikara stunda kynlíf í skriftastól í kirkju í borginni. Myndbandið var birt á hollenskum klámvef fyrr á þessu ári.

Að sögn saksóknara þá er myndin vissulega særandi, en enginn lög eru enn í gildi í landinu sem banna guðlast.

Jan van Noorwegen, prestur í Sankti Jósefskirkjunni, sagðist vera ósáttur með úrskurðinn og aðrir embættismenn kirkjunnar hafa sagt eitthvað verulega mikið vera að dómskerfinu.

Myndbandið var birt á vef hollensku klámstjörnunnar Kim Holland í janúar. Hún baðst afsökunar á birtingunni og sagði myndbandið hafa verið gert af öðrum framleiðanda og það yrði fjarlægt af vef hennar, að að því er hollenska sjónvarpsstöðin Omroep Brabant greinir frá.

Séra Van Noorwegen hélt í kjölfarið sérstaka fyrirgefningamessu vegna vanhelgunar á kirkjunni. Kirkjuyfirvöld kærðu málið hins vegar til saksóknara sem greindi í dag frá því að ekki verði gefin út ákæra.

„Okkur finnst þetta vera særandi og sýna óvirðingu en við erum búin að skoða lögin vandlega og sjáum ekki að glæpur hafi verið framinn,“ hefur BBC eftir talsmanni saksóknaraembættisins. „Guðlast er ekki glæpur og málið snýst ekki um að einhver hafi farið inn í leyfisleysi.“

Kirkjuyfirvöld verða nú að ákveða hvort þau vilji höfða einkamál vegna myndbandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert