Lést eftir fall í kauphöllinni í London

Kauphöllin í London.
Kauphöllin í London. AFP

Starfsmaður bresku kauphallarinnar lést í dag eftir að hafa fallið niður sjö hæðir inni í byggingu kauphallarinnar í London. Er hann sagður hafa fallið af svölum á sjöundu hæð hússins og niður á jarðhæð þess. 

Lögregla og sjúkralið voru kölluð á vettvang um klukkan tíu í morgun og var maðurinn úrskurðaður látinn stuttu síðar.

Lögregla rannsakar nú slysið, en ekki er talið að það hafi borið að með saknæmum hætti.

Yfirstjórn kauphallarinnar í London hefur einnig staðfest að maður hafi látist í byggingunni eftir fall fyrr í dag. „Haft var samband við neyðarlínu samstundis, og er nú unnið að rannsókn málsins. Við munum halda áfram að bjóða fram alla okkar aðstoð í málinu,“ sagði talsmaður.

Kauphöllin í London (e. London Stock Exchange), sem á uppruna sinn að rekja til ársins 1698, er ein elsta kauphöll heims og er byggingin sögufræg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert