Sökin hjá báðum fylkingunum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræðir við blaðamenn í dag.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræðir við blaðamenn í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði á blaðamannafundi í dag fyrri ummæli sín þess efnis að ofbeldið í borginni Charlottesville í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum um síðustu helgi hafi verið sök beggja fylkinganna sem þar laust saman.

Hvítir kynþáttahatarar komu saman í borginni til þess að mótmæla áformum um að fjarlægja styttu af hershöfðingjanum Robert E. Lee sem fór fyrir her Suðurríkjanna í borgarastyrjöld Bandaríkjanna sem fram fór á árunum 1861-1865.

Fólk kom saman til þess að mótmæla kynþáttahöturunum og í kjölfarið ók einn þeirra bifreið á fólkið með þeim afleiðingum að kona lét lífið og 19 urðu fyrir meiðslum. Ökumaðurinn, James Fields, hefur verið ákærður fyrir manndráp.

Trump sagði sök á atburðinum að finna á báða bóga þegar hann var spurður út í málið. „Það var hópur öðru megin sem var slæmur. Síðan var hópur hinu megin sem einnig var mjög ofbeldisfullur. Enginn vill segja það. Ég segir það hér og nú.“

Forsetinn sagði tvær hliðar á málinu. Öfgafullir vinstrimenn hafi einnig komið við sögu. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hafi beðið þar til í gær með að fordæma kynþáttahatarana sagðist hann ekki hafa viljað gefa út yfirlýsingu í of miklum flýti.

„Væru fjölmiðlar ekki falskir og ef þeir væru heiðarlegir hefðu þeir sagt að það sem ég sagði hafi verið mjög gott,“ sagði Trump ennfremur. Sagði hann ennfremur að Fields væri skömm fyrir hann sjálfan, fjölskyldu hans og Bandaríkin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert