Talíbanar vara við hernaðaríhlutun

Bandarískir hermenn í Afganistan.
Bandarískir hermenn í Afganistan. AFP

Talíbanar vara Donald Trump Bandaríkjaforseta við því að fjölga bandarískum hermönnum í Afganistan og hvetja hann til að draga hersveitir sínar til baka úr landinu. Þeir segja að fjölgun bandarískra hermanna í landinu hafi neikvæðar efnahagslegar afleiðingar í för með sér fyrir Bandaríkin og ýti undir frekari eyðileggingu bandaríska hersins.

Í dag eru 8.400 bandarískir hermenn í landinu sem starfa aðallega við ráðgjöf og þjálfun afganskra hersveita. Þetta er innan við tíu prósent af fjölda hermanna fyrir tíu árum en þá voru hermennirnir í kringum 100 þúsund talsins.

Talið er líklegt að Jim Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna kynni fyrir Trump á næstu dögum tillögur að stefnu bandarískra stjórnvalda um hernaðaríhlutun í landinu. Herforingjar Bandaríkjahers í Afganistan hafa kallað eftir fjölgun hermanna.

Talíbanar sem réðu ríkjum í Afganistan á árunum 1996 til 2001 gagnrýndu einnig í opnu bréfi sem sent var á fjölmiðla núverandi stjórnvöld í Afganistan og vöruðu þau við því að bandarísk stjórnvöld næðu aldrei að yfirbuga Talíbanana. 

Þá vöruðu Talíbanarnir jafnframt við hugmyndum Bandaríkjaforseta um þátttöku einkaaðila í hernaði í landinu og vísuðu þar til hugmynda Erik Prince um að senda 5.500 verktakaher til Afganistan til að leysa núverandi hersveitir Bandaríkjanna af hólmi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert