Leita stolinna víkingagripa

Hátt í 300 munum hefur verið stolið af safni í …
Hátt í 300 munum hefur verið stolið af safni í Bergen. Óttast er að þjófarnir reyni að selja þá á netinu. Ljósmynd/Universitetsmuseet i Bergen

Óttast er að víkingagripir, sem stolið var úr safni Í Bergen í Noregi um helgina, séu til sölu á netinu. Forstjóri safnsins segir að um missi menningararfs allra Norðmanna sé að ræða.

Að minnsta kosti 245 gripum var stolið úr safninu þegar brotist var þar inn um helgina. „Þetta er algjörlega hræðilegt. Það eru engin önnur orð sem lýsa þessu,“ sagði  forstjóri safnsins, Henrik von Achen, í viðtali við norska ríkisútvarpið. Gæti sú tala hækkað á næstu vikum þegar betur kemur í ljós hversu margra muna er saknað.

Fólk beðið að hafa augun opin

Safnið hefur birt 40 myndir af gripunum sem stolið var og biðlar til fólks eftir hjálp við finna þá og fá þá til baka. Óttast er að þjófarnir reyni að selja munina á netinu og er fólk því beðið um að hafa augu og eyru opin.

„Þetta er ekki aðeins þjófnaður frá safninu heldur er þetta þjófnaður frá okkur öllum. Allir Norðmenn hafa misst hluta af menningararfi sínum,“ sagði von Achen.

Enginn grunaður um þjófnaðinn

Ekki er vitað hvort að ránið hafi verið með framið af ásetningi. Þá hefur lögregla auglýst eftir mögulegum vitnum að innbrotinu en enn sem komið er er enginn grunaður í málinu.

Talið er að þjófarnir hafi brotist inn um glugga á sjöundu hæð safnsins á laugardagskvöld með þeim afleiðingum að öryggiskerfi fór tvisvar í gang. Þegar öryggisverðir komu á staðinn sáu þeir hins vegar ekkert grunsamlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert