Snýst ekki um „svokallaðan forseta“

LeBron James.
LeBron James. AFP

Körfuknattleiksmaðurinn LeBron James hefur gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega á Twitter í kjölfarið á aðgerðum kynþáttahatara í Charlottesville um helgina.

Heather Heyer lét lífið á laugardag eftir að maður úr hópi kynþáttahatara keyrði bíl sínum viljandi inn í mannmergð. Trump var gagnrýndur þegar hann sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að sökin lægi hjá kynþáttahöturum og einnig hópi sem mótmælti þeim.

„Það var hóp­ur öðru meg­in sem var slæm­ur. Síðan var hóp­ur hinu meg­in sem einnig var mjög of­beld­is­full­ur. Eng­inn vill segja það. Ég seg­ir það hér og nú,“ sagði Trump meðal annars.

„Ég veit að það eiga hræðilegir hlutir sér stað í Charlottesville,“ sagði James á góðgerðarviðburði í gærkvöldi.

„Ég vil tala um þetta núna og ég hef rödd sem heyrist. Eina leiðin til að samfélagið okkar verði betra og að fólk verði betra er í gegnum kærleika. Það er eina leiðin til þess að við afrekum eitthvað sem ein heild. Þetta snýst ekki um manninn sem er svokallaður forseti Bandaríkjanna eða hvert sem málið er,“ sagði James.

Fyrr í gær hafði James gagnrýnt Trump á Twitter. „Hatur hefur alltaf verið til staðar í Bandaríkjunum. Við vitum það en Donald Trump gerði það vinsælt aftur! Styttur hafa ekkert með okkur að gera núna!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert