Fólk kom hlaupandi hágrátandi

Vopnaðir sérsveitarmenn í Barcelona.
Vopnaðir sérsveitarmenn í Barcelona. AFP

Birgitta Rún Smáradóttir var stödd ásamt vinkonum sínum í grennd við Römbluna í Barcelona þegar maður keyrði þar inn í hóp fólks fyrr í dag. Þær eru núna staddar á hosteli nálægt því þar sem árásarmaðurinn hefur verið króaður af. 

Hún segir að þær vinkonu hafi rétt verið farnar að ganga til baka frá Römblunni þegar þær sáu lögreglubíla og fólk koma hlaupandi.  „Við sáum lögreglubíla koma og sáum hvernig fólk hljóp í burtu frá staðnum,“ sagði Birgitta í viðtali við mbl.is.

Þær hlupu eins og flestir aðrir inn á næsta veitingastað. Hún segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig. „Við sáum hvernig fólk var að stoppa á leiðinni til baka, hágrátandi.“ Hún segir að eflaust margir hafi upplifað sig vera í óvissu enda margir ekki með neinn stað til þess að fara á.

Konan sem á veitingastaðinn þar sem þær ásamt fjölda fólks leituðu hælis sagði að öruggast væri fyrir þær að fara áður en að annað atvik eigi sér stað. Benti hún þeim á að halda sig heima við og að ferðast ekki meira í dag.

Halda þær sig nú inni á hostelinu þar sem þær dvelja en hostelið er í nágrenni við veitingastaðinn þar sem hinn grunaði hefur verið króaður af að sögn Birgittu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert