Hafa handtekið einn árásarmann

AFP

Fréttir erlendra fjölmiðla herma að einn hafi verið handtekinn í tengslum við hryðjuverkið í Barcelona á Spáni í dag. Komið hefur einnig fram að að minnsta kosti tveir hafi átt þátt í árásinni þar sem sendiferðabifreið var ekið á hóp fólks á Römblunni sem er vinsæl gata í borginni á meðal ferðamanna og heimamanna.

Spænska lögreglan hefur staðfest að einn hafi látist í árásinni og 32 orðið fyrir meiðslum, þar af tíu alvarlegum. Fjölmiðlar hafa hins vegar sagt að allt að þrettán hafi látist. Það hefur ekki verið staðfest. Haft er eftir innanríkisráðherra Katalóníu, Joaquim Forn, á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að tala látinna eigi líklega eftir að hækka.

Fréttir hafa borist af því að annað hvort einn eða tveir árásarmenn hafi verið króaðir af inni á veitingahúsi við götuna. Þeir væru vopnaðir og hefðu tekið gísla. Síðustu fréttir herma að ekki hafi verið um gíslatöku að ræða. Ekki er ljóst hvort árásarmaðurinn sem hefur að sögn fjölmiðla verið handtekinn hafi verið á veitingahúsinu.

Maðurinn sem handtekinn hefur verið er sagður hafa leigt hvítu sendiferðabifreiðina sem notuð var í árásinni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tilefni árásarinnar og enginn hefur enn sem komið er lýst ábyrgð á henni á hendur sér.

Hryðjuverkið hefur verið fordæmt af forystumönnum um allan heim og þar á meðal Donald Trump, forseta Bandaríkjannna, Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Uppfært 18:29: Innanríkisráðherra Katalóníu hefur staðfest að þrettán hafi látið lífið og að minnsta kosti 50 orðið fyrir meiðslum samkvæmt fréttavef Guardian.

Uppfært 18:37: Spænska lögreglan hefur birt mynd af karlmanni sem talinn er hafa leigt sendiferðabifreiðina og gefið upp nafn hans sem er Driss Oukabir. Fram kemur á fréttavef Guardian að ekki sé þó ljóst um sé að ræða sama mann og handtekinn hefur verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert